spot_img
HomeFréttirBulls-Celtic í beinni á Stöð 2 Sport í kvöld

Bulls-Celtic í beinni á Stöð 2 Sport í kvöld

13:17
{mosimage}

(Baldur Beck segir það nánast lögreglumál hve vel Rajon Rondo hefur verið að spila)

Sjötta viðureign meistara Boston Celtics og Chicago Bulls í úrslitakeppni NBA deildarinnar fer fram í kvöld og verður leikurinn sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport kl. 23:00. Leikir þessara liða hafa verið hreint út sagt magnaðir og fengum við Baldur Beck, einhvern mesta NBA speking landsins, til þess að hita smávegis upp fyrir leikinn í kvöld.

,,Það var alveg kominn tími á að sýna leik í þessu einvígi, sem hefur klárlega verið það langskemmtilegasta í úrslitakeppninni til þessa. Ég hef ekki verið svona spenntur fyrir einvígi í fyrstu umferð síðan Golden State sló Dallas út á eftirminnilegan hátt árið 2007.

Þetta unga Chicago lið hefur heldur betur komið á óvart og það er ljóst að meistararnir verða að hafa sig alla við til að vinna seríuna. Það segir sína sögu um skemmtanagildið að þrír af fyrstu fimm leikjunum hafa farið í framlengingu, sem aldrei hefur gerst áður í sögu úrslitakeppninnar.

Svo hefur verið einstaklega skemmtilegt að fylgjast með einvígi þeirra Derrick Rose og Rajon Rondo. Rose hefur verið að gera sín mistök, enda nýliði, en Chicago væri ekki í þessari stöðu án hans. Svo er frammistaða Rondo í þessari seríu bara orðin lögreglumál. Maðurinn er með þrefalda tvennu að meðaltali.

Það verður gríðarlega áhugavert að sjá hvort Chicago nær að vinna á heimavelli og koma þessu í oddaleik á laugardaginn. Boston hefur bara tapað tveimur af síðustu sautján heimaleikjum sínum í úrslitakeppninni – en annað tapið var einmitt á móti Chicago um daginn. Það verða allir að sjá þennan leik. Það er bara þannig,“ sagði Baldur og ljóst hvað hann verður að gera laust fyrir miðnætti í kvöld.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -