Það fer heldur betur að styttast í stóru stundina. Í dag eru einungis einn dagur í að Ísland hefji leik á lokamóti Eurobasket 2017 og það í annað skiptið í röð.
Á morgun klukkan 13:30 á íslenskum tíma stígur Ísland á völlinn gegn sterku liði Grikklands. Það verður fyrsti leikur Íslands af fimm leikjum á átta dögum.
Körfunni barst baráttukveðja til liðsins frá leikjahæsta leikmanni liðsins frá upphafi, Guðmundi Bragasyni. Á 16 ára landsliðsferil sínum, frá árinu 1987 til ársins 2003, spilaði Guðmundur 169 leiki fyrir Íslands hönd.
Sá sem hefur leikið flesta leiki í núverandi landsliðshóp er hinn síungi Logi Gunnarsson, en þeir eru 138 talsins. Í heildin er Logi því í fjórða sæti leikjahæstu leikmanna frá upphafi. Í því þriðja er Jón Kr. Gíslason með 158 og annar er Valur Ingimundarson með 164 leiki spilaða.
Mynd / Grindavík.net
Kveðju Guðmundar má lesa hér fyrir neðan:
"Fyrir hönd fyrrum landsliðsmanna í körfuknattleik sendi ég baráttukveðjur til íslenska landsliðsins, sem er að hefja þáttöku á Eurobasket.
Það er mikill tilhlökkum hjá okkur öllum sem fylgjast með ykkur kæru landsliðsmenn og ég er sannfærður um að stemmingin í Helsinki verður mögnuð.
Njótið augnabliksins, hafið gaman af þessu og virkið stemminguna í baráttunni á vellinum. Þá munu góðir hlutir gerast!
Áfram Ísland!"