19. nóvember 2004 mættu Indiana Pacers til leiks við Detroit Pistons í upphafi 2004-2005 leiktíðarinnar. Pistons voru ríkjandi meistarar en þessi tvö lið höfðu lent saman í úrslitum austurdeildarinnar í úrslitakeppninni um vorið þar sem m.a. þetta gerðist. Það var því engin vinsemd milli þessara liða sem mættust svona snemma á leiktíðinni í sjónvörpuðum leik sem margir höfðu beðið lengi eftir.
Leikurinn einkenndist af hörðum varnarleik eins og venjan var hjá þessum tveimur liðum. Eitthvað hafði verið lamið á Ron Artest (sem nú heitir Metta World Peace) og farið að fjúka í hann. Þegar 46 sekúndur voru eftir af leiknum og Indiana 15 stigum yfir ákvað Ron Artest að brjóta á Ben Wallace undir körfunni. Vila sem var ekki af harkalegri gerðinni miðað við það sem á undan hafði gengið milli þessara liða. Það fauk hins vegar í snögglega í Big Ben og hann hrinti Artest nokkra metra í burtu.
Í kjölfarið fylgdu einhver mestu slagsmál milli leikmanna annars vegar og milli leikmanna og áhorfenda hins vegar, í sögu deildarinnar. Atburður sem hafði djúpstæð áhrif á deildina og að mörgu leyti ástæða þess að aðeins dauðhreinsuð og vélræn hegðun leikmanna er leyfð á vellinum í dag.
Ég mæli með þessari grein af Grantland þar sem farið er yfir atvikið með augum allra helstu áhorfenda og þátttakenda í óeirðunum. Kom mér t.d. á óvart hversu mikill þátttakandi Mike Brown, síðar aðalþjálfari LeBron James og Cleveland Cavaliers, var í þessu öllu saman og hversu alvarlega ólátabelgurinn Rasheed Wallace tók hlutverki sínu að stilla til friðar milli deiluaðila.