spot_img
HomeFréttirWilliams hættur hjá Maryland: Hver verður næsti þjálfari Hauks?

Williams hættur hjá Maryland: Hver verður næsti þjálfari Hauks?

 
Haukur Helgi Pálsson fær nýjan þjálfara hjá Maryland en goðsögnin Gary Williams er hættur með liðið eftir 22 ára veru hjá skólanum. Williams er 66 ára gamall og á meðal átrúnaðargoða skólans. Williams sagði frammi fyrir þúsundum áheyrenda á heimavelli Maryland í dag að hann gæti eflaust þjálfað liðið áfram en nú væri tími til kominn að leiðir skildu og hann ætlaði sér að sjá hvað heimurinn hefur upp á að bjóða.
Viðbúið er að heimavöllur Maryland verði síðar nefndur í höfuð Williams samkvæmt orðum Dr. Wallace D. Loh forseta Maryland skólans. Williams á 33 ára feril að baki sem þjálfari en var einnig leikmaður Maryland á sínum skólaárum 1964-1967. Einu sinni hefur Williams gert Maryland að NCAA meisturum en það var árið 2002 og þá hefur hann sent fjöldamarga leikmenn í NBA deildina úr skólaliði sínu.
 
Áður en Gary Williams tók við Maryland blés ekki svo byrlega hjá liðinu þar sem skólinn var enn að jafna sig á dauða Len Bias sem tók of stóran skammt af kókaíni og var skólinn drekkhlaðinn allskyns boðum og bönnum í kjölfar dauða Bias. Williams stýrði liðinu út úr þessum hrakningum og hefur Maryland um árabil nú skipað sér á meðal bestu háskólaliða Bandaríkjanna í hinum sterka ACC riðli.
 
Maryland hefur ekki fundið eftirmann Williams en þegar hafa nokkur stór þjálfaranöfn verið bendluð við starfið, einhverjir hafa kastað því fram að Mark Few hjá Gonzaga gæti tekið við sem nýji þjálfari Maryland og aðrir sagt að Mike Brey þjálfari Notre Dame væri líklegur, það ræðst væntanlega fyrr en síðar en ljóst er að Íslendingurinn Haukur Helgi Pálsson mun þurfa að ganga í augun á nýjum þjálfara.
 
Mynd/ Gary Williams með hnefann á lofti, hann er margfrægur fyrir ,,fist-pumpin“ sín.
 
Fréttir
- Auglýsing -