Garðar Örn Arnarson er ungur Keflvíkingur sem tók sig til og gerði heimildarmynd um fyrsta titil þeirra Keflvíkinga. 1989 kom sá fyrsti í hús hjá Keflvíkingum sælla minninga og leikmenn á borð við Jón KR , Axel Nikulásson, Falur Harðarson og Guðjón Skúlason sem báru uppi þetta lið ásamt fleirum. Myndin hjá Garðari er 25 mínútur og nokkuð góð.
Garðar er 23 ára Keflvíkingur í húð og hár. Hann er mikill körfuknattleiksunandi og hefur stundað íþróttina frá því að hann var 5 ára. Hann er einnig mikill stuðningsmaður liðsins og mætir á alla leiki sem hann sér sér fært að komast á. Garðar stundar nám við leikstjórn og framleiðslu og eitt verkefni hans var að gera heimildarmynd. Þau voru því hæg heimatökin þegar kom að því að gera heimildarmynd um fyrsta titil þeirra Keflvíkinga.
"Mig langaði að gera mynd um fyrsta titilinn því fæstir af yngri kynslóð Keflavíkur vita hreinlega ekkert hvernig þetta hófst allt og meira segja ég hafði ekki einu sinni séð Jón Kr, þá miklu hetju spila áður en ég fór að gera þessa mynd. Ef þú færir t.d. á æfingu hjá ungviðinu í dag og spyrðir þau um Axel Nikulásson þá hafa þau ekki hugmynd um hver það er, en þarna var hann að pakka saman sjálfum Ívari Webster."
Garðar er sem fyrr segir 23 ára sem þýðir að hann var enn með snuðið í kjaftinum þegar Keflvíkingar voru að fagna sínum fyrsta titli. " Nei ég get ekki sagt að ég muni mikið eftir þessum titli en fyrsta minning mín af titli er líkast til 1997 en þá var ég vatnsberi hjá liðinu. Þá voru Falur, Gauji, Damon og Alli (Albert Óskarsson) aðal kallarnir í liðinu. Sem vatnsberi þá fékk ég náttúrulega líka verðlaunapening og ég á hann ennþá til á góðum stað. Hetja mín var Guðjón Skúlason en hann var mikil skytta og er enn. Þetta heillaði mig og ég gat alveg séð fyrir mér að eyða ferli mínum fyrir utan þriggjastigalínuna. "
22 ár eru síðan þessi titill kom í hús og á þeim tíma var enn nokkuð langt í digital tæknina. Þannig að mest efnið var til á VHS spólum sem þurfti svo að koma yfir á tölvutækt form.
"Þetta var svo sem ekkert erfitt að vinna þetta. Við lentum kannski í smá erfiðleikum til að byrja með en svo var þetta bara gaman. Þetta er náttúrulega mitt áhugamál að öllu leiti, kvikmyndir og svo mitt íþróttafélag. Allir voru svo til í það að vera með og eða taka þátt og það gerði þetta auðvitað líka skemmtilegra.
Ýmislegt hefur breyst frá þessum tíma. Stuttbuxurnar hafa lengst nánast um helming og Falur Harðarson er t.a.m ekki lengur með strípur og stall. En hvað kom Garðari á óvart við gerð myndarinnar.
"Stemmningin í húsinu kom mér mjög á óvart. Svona hef ég aldrei séð áður þar sem að það voru læti allt frá fyrstu byrjun til enda leiks. Það varla heyrist í lýsinguni hjá þulum í sjónvarpi svo mikil voru lætin. Af leikmönnum þá kom Nökkvi Már Jónsson mér á óvart og svo auðvitað Jón Kr. þar sem ég hafði aldrei séð hann spila. Svo hefur nafnið Lee Nober oft dúkkað upp en maður vissi aldrei hver það var en þarna kemur í ljós að hann átti stóran þátt í þessu upphafi."
"1989 Upphafið af stórveldinu" heitir myndin og það kom aldrei neitt annað til greina.
"Ég er búin að heyra það frá mörgum Njarðvíkingum að Keflavík sé nú ekki stórveldið í bæjarfélaginu en það sem ég var að hugsa var að koma því að að Keflavík er stórveldi í körfuboltanum. Þessi gömlu stórveldi eins og ÍR og KR unnu alla sína titla þegar enginn var í körfu og í raun bara spurning hver kæmist í leikina."
Garðar fylgist enn vel með sínu liði og telur það vel í stakk búið til að gera atlögu að þeim stóra í ár.
"Ekki nokkur spurning að ég tel að þeir eigi eftir að fara alla leið. Ég er ánægður með liðið, ungir strákar að sýna sig eins og Ragnar og Valur. Ég held að þegar kemur að apríl muni Keflavík standa uppi sem sigurvegari og Grindvíkingar eiga eftir að "choke-a" eins og venjulega." sagði Garðar Örn kokhraustur í viðtali við Karfan.is
Myndin er vel unnin og gríðarlega skemmtilegt að sjá gamlar klippur úr leikjunum frá þeim tíma þegar gólfið í Keflavík var fagurgrænt og áhorfendur stóðu nánast meter frá hliðarlínunni. Þeir sem ekki hafa tryggt sér eintak geta fengið eitt slíkt í verslunum Nettó eða Kaskó á 1000 kr stykkið eða þá haft samband við Garðar í tölvupóst: garð[email protected]