spot_img
HomeFréttirViðtal: Á fullt erindi í meistaradeildina

Viðtal: Á fullt erindi í meistaradeildina

 
Helena Sverrisdóttir er stödd á Íslandi um þessar mundir þar sem hún fær smá tækifæri til þess að verja tíma með fjölskyldu sinni og vinum áður en hamagangurinn hefst á nýjan leik. Helena kom nýverið heim frá Slóvakíu þar sem hún samdi við Good Angels Kosice og heldur í miðri viku aftur út til Bandaríkjanna. Karfan.is settist niður með Helenu á heimili fjölskyldunnar í Hafnafirði og fékk nánari útlistanir á nýja liðinu og svo nýliðavalinu í Bandaríkjunum.
,,Ég var svo viss um að ég fengi að sjá Guðbjörgu systur mína og Pálínu vinkonu mína mætast í úrslitum, ég ætlaði að ná leik með þeim en ég verð þá bara að horfa á Pálínu,“ svaraði Helena aðspurð um hvort hún ætlaði ekki að kíkja á leik á meðan hún væri hér heima. Við hentum líka á hana sveigbolta, hvort hún héldi þá með Keflavík í seríunni gegn Njarðvík þar sem Pálína væri að spila með Keflavík. ,,Ég held með Pálínu,“ sagði Helena sposk og afar diplómatísk.
 
Úr svæði í maður á mann
 
Helena dvaldi vikulangt hjá Good Angels þar sem hún æfði með liðinu og skrifaði svo að endingu undir samning hjá félaginu. Good Angels leikur í meistaradeild Evrópu í kvennaflokki og höfnuðu m.a. í 3. sæti í A-riðli keppninnar þetta tímabilið og rétt misstu af því að komast í undanriðla.
 
,,Ég var alls ekki best þarna úti,“ var Helena fljót að svara þegar við fiskuðum eftir því hvort hún hefði ekki rúllað þessu upp vikuna sem hún dvaldi hjá liðinu. ,,Þetta er allt öðruvísi en það sem ég hef verið að gera síðustu fjögur ár. Á fyrstu æfingunni eyddum við hálftíma í jafnvægisæfingar á boltum, ég hef aldrei gert þetta áður á ævinni og þetta leit ekki vel út hjá mér, samt mjög gaman,“ sagði Helena sem var að jafnaði á tveimur æfingum hvern dag með liðinu og mátti hafa sig alla við eftir langt ferðalag frá Fort Worth í Texas í Bandaríkjunum og alla leið til Slóvakíu.
 
,,Þjálfari liðsins lék sem atvinnumaður í körfubolta í einhver 15 ár og maður heyrir alltaf muninn á þjálfurum sem hafa spilað og þeim sem hafa ekki spilað, ég held að hann geti hjálpað mér mjög mikið og er spennt fyrir því að vinna með honum,“ sagði Helena en telur hún sig tilbúna og eiga fullt erindi í þetta verkefni?
 
,,Já, ég á alveg erindi í þetta, hjá TCU spiluðum við mikið svæðisvörn en í Slóvakíu var ég að dekka leikstjórnanda allan völl, fara úr svæðipressu eins og í TCU yfir í maður á mann pressu en þetta var bara gaman og það er enginn þarna lélegur. Sama við hvern maður spilaði t.d. 1 á 1 á æfingu þá gátu allir eitthvað. Liðið hefur líka verið slóveskur meistari held ég allar götur síðan 2006 og því mjög dóminerandi í deildinni heimafyrir,“ sagði Helena en þegar hún var ytra var úrslitakeppnin að hefjast.
 
,,Það eru átta lið sem leika þarna í úrslitakeppninni, Good Angels vann deildina og voru því að mæta liðinu úr áttunda sæti og voru mun sterkari. Gengi liðsins í Meistaradeildinni (Euroleague) hefur þó verið upp og niður en þær komust m.a. í undanúrsit fyrir tveimur árum síðan.“
 
Engum dylst að skólakerfið í Bandaríkjunum er ekki um margt ósvipað atvinnumennskunni ef laun eru talin frá. Kerfið námsmaður-íþróttamaður er við lýði, námsmaður fyrst og svo íþróttamaður. Hvernig blasti þessi munur við Helenu, munurinn á sterku skólakerfinu í Bandaríkjunum og svo atvinnumennskunni sem hennar bíður í Evrópu?
 
,,Félagið hefur topp aðstöðu og þegar þangað verður komið þarf maður ekki að fara í skólann og þreyta sig á námsefninu,“ sagði Helena létt í bragði. ,,Eftir að hafa talað við stelpurnar í liðinu og m.a. eina sem kláraði nám hjá Duke þá finnst mér liðið æfa vel og utanumhaldið gott. Samband milli stjórnenda og leikmanna er mikið og gott og traustið mikið í herbúðum liðsins, menn lifa fyrir þetta þarna. Ég var t.d. mjög ánægð með þær samræður sem ég átti við fulltrúa liðsins áður en ég skrifaði undir og ég trúi því varla enn að ég sé að fara að spila með liðið í Meistaradeildinni strax á mínu fyrsta ári úr skóla.“

 
Aftur til Ameríku… nýliðavalið framundan í WNBA deildinni
 
Þegar Helena heldur aftur út til Slóvakíu bíður hennar smábær, aðeins 200 þúsund manna bær en næst á dagskrá er ferð til Bandaríkjanna og aðalmálið við endurkomuna til Ameríku er nýliðavalið í kvennadeild NBA, WNBA.
 
,,Ég er ennþá í skólanum, var í mastersnámi og hugmyndin var aldrei að klára það því ég vissi að hugsanlega myndi annað taka við. Ég skráði mig í mastersnám til að geta klárað tímabilið með TCU og er alveg hreinskilin þegar ég segi að ég hafi ekki stundað það nám eins mikið og ég hefði átt að gera. Ég var þó dugleg á meðan tímabilið með TCU var enn í gangi,“ sagði Helena sem segir það fjarlægan draum að komast að hjá WNBA liði í nýliðavalinu sem fer fram þann 11. apríl næstkomandi.
 
,,Ég býst ekki við því að komast að enda er það mjög erfitt,“ sagði Helena sem þó hefur séð nafn sitt á Mock-Drafti eða svokallaðri spá fyrir nýliðavalið. ,,Þessi Mock-Draft breytast mikið og þetta eru einhverjir kallar úti í bæ að spá og spekúlera. Það er ekki mikið mark takandi á Mock-Drafti en samningurinn minn í Slóvakíu gæti þó hjálpað mér eitthvað í nýliðavalinu. Við erum ekki með umboðsmann í Bandaríkjunum en þess í stað hefur Jeff Mittie, þjálfari TCU, góð sambönd og ræðir við WNBA liðin. Ég er samt ekki að stressa mig á þessu,“ sagði Helena sem fer ekki í pre-draft camps og hefur góðar og gildar ástæður fyrir þeirri ákvörðun sinni.
 
,,Upp á minn leik að gera er kannski ekki best fyrir mig að spila þennan 1 á 1 bolta sem á sér stað í pre-draft Camps. Ég er meira í liðsboltanum og vona að það sem ég hef gert síðustu fjögur árin dugi til. Ef nafnið mitt kemur upp í draftinu verður það æðislegt, ef ekki þá er það vissulega smá svekkjandi en þetta er bara svo fjarlægur draumur. Það eru bara 36 leikmenn af öllum háskólaboltanum sem komast að. Ég er sátt við ákvörðun mína um að fara ekki í Camp, ég tel að samningurinn við Good Angels geti sýnt að ég hafi eitthvað aukalega fram að færa fyrst ég er á leið í Euroleague.“
 
Leiktíðin í WNBA deildinni er yfir sumartímann, ástæðan… leikmenn deildarinnar spila í Evrópu á veturna til að fá hærri laun. ,,Fjármagnið í WNBA er lítið, NBA rekur deildina, þ.e. karlahliðin rekur kvennahliðina og leikmenn fara til Evrópu til að fá greitt af alvöru. WNBA er tákn, þetta er öðruvísi bolti en í Evrópu en táknið er að komast í WNBA, þú ert búinn að ,,meika“ það ef þú kemst að, svona nokkurskonar gæðastimpill að komast að í deildinni.“
 
Á dagskránni er að Helena mæti aftur til Slóvakíu þann 15. ágúst næstkomandi en margt getur gerst í millitíðinni og bíða margir spenntir eftir því að sjá hvernig nýliðavalið fer í WNBA. ,,Þetta er allt að gerast svo hratt og maður er enn að meðtaka það að vera komin með vinnu næsta tímabil, þetta er eitthvað sem maður hefur beðið eftir svo lengi. Ég hafði kost á því að fara til Evrópu áður en ég fór til TCU en nú er komið að þessu aftur og ég er afar glöð yfir því að hafa fengið þetta tækifæri.“

 
Helena segir svo, til að slá botninn í umræðuna um WNBA, að þú hún komist að í nýliðavalinu þá sé ekki sjálfgefið að hún komist að hjá liði. ,,Ef þú ert ekki í fyrstu umferð og jafnvel í topp fimm er ekki víst að þú komist í liðið, þetta er svo lítil deild og margir leikmenn fyrir, Evrópuleikmenn og fleiri í bland við þá frá Bandaríkjunum,“ sagði Helena svo það er vissulega fjarlægur draumur að komast að en við sjáum hvað setur 11. apríl.
 
Helena útskrifaðis með BS gráðu í Communication, samskiptafræði frá TCU en býst fastlega við því að þegar ferlinum ljúki munu hún vafalítið finna sér eitthvað við íþróttina til að gera. ,,Strax fyrstu önnina var ég sett í ræðutíma, beint frá litla Íslandi og það var svolítið brjálað en nú er það lítið mál. Ég er ekki pottþétt á því hvað ég vilji gera eftir körfuboltann en það mun örugglega tengjast íþróttinni eitthvað enda hefur þetta verið lífið manns svo lengi. Ég væri samt til í að vinna eitthvað við markaðsstörf eða annað í þá áttina.“
 
Aðspurð að lokum hvort það hafi haft áhrif á hana þegar ákveðið var að leggja niður karla- og kvennalandslið Íslands svaraði Helena:
,,Já og nei, það vita fáir um Ísland og við höfum ekki spilað landsleiki í tvö ár. Það er alltaf gaman með landsliðinu en það er öðruvísi að vera landsliðsmaður frá Íslandi eða t.d. milljónaþjóð. Við erum samt að gera eitthvað rétt með leikmenn í TCU og Maryland og víðar og það var t.d. mjög gaman að fylgjast með vinum mínum í Bandaríkjunum fríka út yfir því að vera horfa á Íslending spila með Maryland á ESPN, það var fullnaðarsigur körfuboltans miðað við höfðatölu.“
 
Myndir/ Efsta mynd: Tomas Kolodziejski/ Helena heimavið í Hafnarfirði.
Aðrar myndir/ Úr safni
 
Viðtal/ Jón Björn Ólafsson[email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -