spot_img
HomeFréttirVerða það funheitir KR-ingar sem fella Fjölni í kvöld?

Verða það funheitir KR-ingar sem fella Fjölni í kvöld?

Í kvöld er heil umferð á dagskránni í Domino´s deild kvenna og hefjast allir leikirnir kl. 19:15. Viðureign Snæfells og Grindavíkur fer fram í Stykkishólmi ef veður leyfir en eins og öllum er kunnugt er aftaka veður og ekki ósennilegt að viðureign liðanna verði slegið á frest sökum þessa en það skýrist þó væntanlega á næstunni. Aðrar viðureignir ættu ekki að vera vandamál þar sem Keflvíkingar þurfa aðeins að komast yfir ,,lækinn” til Njarðvíkur, Valur mætir Haukum og Fjölnir tekur á móti KR í leik sem gæti ráðið örlögum þeirra!
 
Leikir kvöldsins í Domino´s deild kvenna, 19:15:
 
Fjölnir – KR
Njarðvík – Keflavík
Valur – Haukar
Snæfell – Grindavík
 
Fjölnir – KR
Ef Fjölniskonur tapa leiknum eru þær fallnar í 1. deild kvenna og leika þar á næstu vertíð. KR-ingar eru í fantaformi um þessar mundir og eru staddir í lengstu sigurgöngu deildarinnar um þessar mundir þar sem þær hafa unnið síðustu sex deildarleiki. Fjölniskonur hafa tapað síðustu fimm leikjum í röð og þar af síðustu þremur á heimavelli.
 
Njarðvík – Keflavík
Ríkjandi Íslandsmeistarar Njarðvíkur komast ekki í úrslitakeppnina þetta árið, það varð ljóst fyrir nokkru en Keflvíkingar eru þar öruggir inn með 40 stig á toppi deildarinnar. Keflavík á leik til góða á Snæfell en aðeins tveimur stigum munar á liðunum núna í deildinni. Til að Snæfell verði deildarmeistari dugir þeim ekki að jafna Keflavík að stigum heldur verða þær að komast upp fyrir Keflavík þar sem toppliðið hefur betur í innbyrðisbaráttunni.
 
Valur – Haukar
Úrslitakeppnin er enn í boði fyrir Hauka en fleiri feilspor eru það ekki. Valskonur hafa 26 stig í 4. sæti deildarinnar en Haukar með 22 stig í 5. sæti. Valur leiðir innbyrðis gegn Haukum og hafa unnið tvo leiki í rimmum liðanna en Haukar einn. Haukar eru með betra stigahlutfall millum liðanna svo sigur jafnvel með einu stigi í kvöld dugir þeim til að ná innbyrðisviðureigninni á sitt band.
 
Snæfell-Grindavík
Úrslitakeppnin er runnin Grindvíkingum líkt og Njarðvíkingum úr greipum. Hólmarar eiga þó enn möguleika á því að verða deildarmeistarar, Snæfell þarf þó að treysta á önnur lið að leggja Keflavík að velli svo að það geti orðið jafnframt því að vinna sína leiki. Snæfell er með 38 stig í 2. sæti deildarinnar en Keflavík 40 stig á toppnum með leik til góða á Snæfell.
 
Þá er einnig leikið í bikarkeppni yngri flokka í kvöld en alla leiki dagsins má nálgast hér.
 
Staðan í Domino´s deild kvenna
Deildarkeppni
Nr. Lið U/T Stig
1. Keflavík 20/3 40
2. Snæfell 19/5 38
3. KR 15/8 30
4. Valur 13/11 26
5. Haukar 11/13 22
6. Njarðvík 8/16 16
7. Grindavík 6/18 12
8. Fjölnir 3/21 6
  
Mynd/ Guðrún Gróa splæsir í sterka rokk-stöðu hérna. Hún mun væntanlega láta til sín taka í Dalhúsum í kvöld.
Fréttir
- Auglýsing -