spot_img
HomeFréttirVarið skot frá Batum í lok leiks tryggð Frökkum í úrslit -...

Varið skot frá Batum í lok leiks tryggð Frökkum í úrslit – Mæta Bandaríkjunum á laugardag

Undanúrslit Ólympíuleikanna fóru fram í nótt og í morgun og er nú ljóst hvaða lið mætast í úrslitunum. Það verða Bandaríkin og Frakklands sem leika til úrslita eftir æsileg undanúrslit.

Þrátt fyrir brösuga byrjun Bandaríkjanna í þessu landsliðsverkefni virðist liðið vera að ná vopnum sínum á ný en liðið vann nokkuð öruggan sigur á Ástralíu í undanúrslitaleik sem fór fram í nótt. Ástralir voru sterkari í upphafi leiks en segja má að Bandaríkin hafi klárað leikinn með frábærri frammistöðu i þriðja leikhluta. Lokastaðan 97-78 fyrir Bandaríkin. Kevin Durant fór líkt og áður fyrir liði Bandaríkjanna þar sem hann var með 23 stig og 9 fráköst. Hjá Áströlum var það Patty Mills sem var öflugastur mað 15 stig, 8 stoðsendingar og 5 fráköst.

Mun meiri spenna var í seinni leik dagsins þar sem Frakkar og Slóvenar mættust í morgunsárið. Frakkland hafði tögl og haldir á leiknum meirihluta hans en Slóvenar voru aldrei langt undan. Upphófust æsilegar lokasóknir þar sem Klemen Prepelic fór fyrir Slóvenum. Það dugði ekki til því það var Nikolas Batum sem átti varnartilþrif til að sigra leikinn. Þá varði hann sniðskot Prepelic í spjalið á sama tíma og leikklukkan gall. Niðurstaðan eins stigs sigur Frakka 90-89.

Nando De Colo var frábær fyrir Frakka og endaði með 25 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Hjá Slóvenum átti Luka Doncic magnaðan leik og endaði með 16 stig, 10 fráköst og 18 stoðsendingar. Það var öllum ljóst að Luka gekk ekki heill til skógar og gat ekki skotið boltanum í fjórða leikhluta. Þrátt fyrir það hafið hann mikil áhrif á leikinn og náði fyrstu þreföldu tvennunni í sögu Ólympíuleikanna.

Úrslitaleikur Bandaríkjanna og Frakklands fer fram aðfaranótt laugardagsins 7. ágúst kl 02:30. Til gamans má geta að Frakkar unnu Bandaríkin í fyrsta leik leikanna þegar þau mættust í riðlakeppninni. Bronsleikurinn milli Slóvena og Ástralíu fer svo fram kl 11:30 þann sama dag.

Fréttir
- Auglýsing -