spot_img
HomeFréttirValskonur í kennslustund í DHL-Höllinni (Umfjöllun)

Valskonur í kennslustund í DHL-Höllinni (Umfjöllun)

21:21
{mosimage}

(Hildur Sigurðardóttir sprengir upp Valsvörnina)

KR vann í kvöld mikilvægan sigur á Val í Iceland Express deild kvenna 77-53 og með sigrinum er það ljóst að það ræðst ekki fyrr en í síðustu umferðinni miðvikudaginn 21. janúar hvort KR eða Valur leiki í A hluta deildarinnar. Framan af leik benti allt til þess að mestu harðnaglar myndu naga á sér neglurnar á lokasprettinum en KR afgreiddi málið með mögnuðum þriðja leikhluta þar sem þær gerðu 25 stig gegn 4 frá Val. Liðin eru nú jöfn að stigum í 4.-5. sæti en KR hefur betur í innbyrðisviðureignum. Vinni bæði lið leiki sína í næstu umferð fer KR áfram.

DHL-Höllin var við frostmark í upphafi leiks og áttu liðin í mesta basli með að finna körfuna. Staðan var 2-2 eftir þriggja mínútna leik en gestirnir af Hlíðarenda tóku snemma forystuna og komust í 2-12. Guðrún Ámundadóttir hóf leikinn á bekknum en það birti umsvifalaust til í tilveru KR-inga þegar hún mætti til leiks. Guðrún gerði sex stig í röð fyrir KR og minnkaði muninn í 8-14 en leikhlutanum lauk í stöðunni 10-14 þar sem KR náði aðeins að rétta sinn hlut eftir skelfilega byrjun.

KR komst svo yfir í fyrsta sinn í leiknum þegar Heiðrún Kristmundsdóttir setti niður þriggja stiga körfu og breytti stöðunni í 24-22 KR í vil. Heiðrún átti fínar rispur hjá KR í kvöld og ljóst að hún á eftir að láta betur að sér kveða í nánustu framtíð. KR komst svo í 33-27 með þriggja stiga körfu frá Sigrúnu Ámundadóttur en Valskonur áttu lokaorðið og gerðu næstu 7 stig í röð og leiddu 33-34 í hálfleik.

{mosimage}
(Heiðrún Kristmundsdóttir)

Þær Þórunn Bjarnadóttir og Signý Hermannsdóttir voru báðar með 11 stig í hálfleik hjá Val en Sigrún Ámundadóttir var með 8 stig í liði KR.

Alger viðsnúningur varð á leiknum í þriðja leikhluta þar sem KR hrökk í gírinn og brunaði yfir gesti sína. Vörn KR var miskunnarlaus í þriðja leikhluta og Valskonur áttu engin svör og skoruðu aðeins 4 stig í leikhlutanum. KR gerði 7 fyrstu stig síðari hálfleiks áður en Valur náði að skora en Sigrún Ámundadóttir kom KR yfir með 10 stigum er hún skoraði tvær þriggja stiga körfur í jafn mörgum sóknum.

Valskonur fóru óvarlega með boltann í þriðja leikhluta og KR refsaði grimmilega fyrir hver einustu mistök. Leikhlutinn er vafalítið einhver sá lélegasti í vetur hjá Val og KR var ekki til setunnar boðið. KR vann leikhlutann 25-4 og leiddu 58-38 fyrir fjórða og síðasta leikhluta og nokkuð ljóst hvort liðið færi með sigur af hólmi.

Í upphafi fjórða leikhluta voru aðeins fjórir leikmenn í liði Vals búnir að skora á meðan KR hafði fengið veglegt framlag frá átta leikmönnum. Þegar upp stóð höfðu Valskonur ekki bensín á tanknum til að hlaupa með KR sem fagnaði síðan öruggum 77-53 sigri.

Sigrún Ámundadóttir var stigahæst í liði KR með 18 stig, 8 fráköst og 3 stolna bolta. Margrét Kara Sturludóttir bætti við 10 stigum hjá KR en hún var einnig með 5 fráköst, 5 stoðsendingar, 3 stolna bolta og eitt varið skot. Heiðrún Kristmundsdóttir, Hildur Sigurðardóttir og Guðrún Ámundadóttir áttu einnig allar fína spretti fyrir KR í kvöld.

Signý Hermannsdóttir lauk leik með 19 stig í liði Vals en hún var einnig með 14 fráköst og 5 varin skot. Næst Signýju var Þórunn Bjarnadóttir með 15 stig, 10 fráköst og 5 stoðsendingar. Tinna B. Sigmundsdóttir lék sinn síðasta leik fyrir Val í bili og gerði hún 5 stig og tók 3 fráköst en Tinna mun í næstu viku flytjast búferlum og setjast að hjá gömlu herraþjóðinni Danmörku.

Í næstu umferð mætast svo Fjölnir og KR í Grafarvogi en Valur mætir Íslandsmeisturum Keflavíkur í Vodafonehöllinni.

[email protected]

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -