Íslandsmeistarar KR rótburstuðu nýliða Fjölnis í Iceland Express deild kvenna í kvöld. Lokatölur leiksins voru 96-52 KR í vil þar sem Margrét Kara Sturludóttir fór mikinn í liði KR og setti bæði stigamet og met í stolnum boltum á tímabilinu. Kara gerði 36 stig í leiknum en þar á undan átti Pálína Gunnlaugsdóttir leikmaður Keflavíkur metið með 35 stig, þá stal Kara 8 boltum í leiknum sem er einnig met í vetur en þar á undan hafði Dita Liepkalne sett metið fyrir Njraðvíkinga er hún stal 7 boltum gegn Grindavík í síðustu umferð. Ekki slæmt dagsverk hér á ferðinni hjá Köru og þetta allt á aðeins 22 mínútum!
Birna Eiríksdóttir opnaði leikinn fyrir Fjölni með þriggja stiga körfu og gestirnir úr Grafarvogi voru nokkuð sprækir í upphafi leiks, misstu KR aðeins frá sér en minnkuðu muninn í 16-14 en Íslandsmeistararnir leiddu 25-17 að loknum fyrtsa leikhluta. Líflegur upphafshluti hjá Fjölni sem fyrir leikinn höfðu rift samningi sínum við Margareth McCloskey, Bergþóra Tómasdóttir var meidd á bekknum og Gréta María Grétarsdóttir var áfram fjarverandi sökum meiðsla.
Íslandsmeistararnir þurftu ekki að sýna neinar vígtennur í öðrum leikhluta, röndóttar pressuðu aðeins og það var nóg til að Fjölniskonur færu einfaldlega í baklás. Grafarvogsdömur töpuðu 13 boltum í fyrri hálfleik, sennilega öllum í öðrum leikhluta!
KR byrjaði annan hluta 16-0 og breyttu stöðunni í 41-17, því miður sást það alla leið upp á Esju að Fjölnir hafði fyrir vikið kastað inn handklæðinu. Skipti þá engum sköpum að Hrafn Kristjánsson þjálfari KR var kominn með allan bekkinn sinn inn fyrir byrjunarliðið, Fjölnir hafði ekki trú á þessu.
Margrét Kara fór fyrir KR á þessu 16-0 áhlaupi og hálfleikstölur reyndust 54-23 KR í vil sem unnu annan leikhluta 29-7. Margrét Kara Sturludóttir var með 18 stig í leikhléi en Inga Buzoka var með 8 stig í liði Fjölnis.
Síðari hálfleikur var léttur jóladesert hjá KR, nýliðar Fjölnis áttu einfaldlega ekki möguleika svo KR leiddi 85-28 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Þegar rúm mínúta var liðin af fjórða leikhluta setti Margrét Kara metin, komst inn í sendingu (áttundi stolni boltinn) og skoraði sjálf og komin með 36 stig.
Fátt markvert var í gangi það sem eftir lifði leiks, úrslitin voru ráðin en nýliðar Fjölnis létu bekkjarleikmenn KR ekki komast upp með neitt múður svo Fjölnir vann síðustu tíu mínúturnar 13-24 og reyndust lokatölur sem áður segir 96-52.
Heildarskor:
KR: Margrét Kara Sturludóttir 36/8 stolnir, Hildur Sigurðardóttir 20/5 fráköst, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir 12, Helga Einarsdóttir 11/6 fráköst, Aðalheiður Ragna Óladóttir 7, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 6, Helga Hrund Friðriksdóttir 2, Hafrún Hálfdánardóttir 2/5 fráköst, Rut Konráðsdóttir 0, Bergdís Ragnarsdóttir 0/6 fráköst, Ingunn Erla Kristjánsdóttir 0, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir 0.
Fjölnir: Inga Buzoka 19/15 fráköst, Birna Eiríksdóttir 17, Erla Sif Kristinsdóttir 6/6 fráköst, Erna María Sveinsdóttir 3, Sigrún Gabríela Jóhannsdóttir 3, Eva María Emilsdóttir 2/7 fráköst, Sigrún Anna Ragnarsdóttir 2, Dagbjört Helga Eiríksdóttir 0, Guðbjörg Skúladóttir 0, Heiðrún Harpa Ríkharðsdóttir 0, Margareth McCloskey 0.
Dómarar: Eggert Þór Aðalsteinsson, Jón Þór Eyþórsson
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski: Margrét Kara Sturludóttir fór mikinn í kvöld á þeim 22 mínútum sem hún lék í leiknum.
Umfjöllun: nonni@karfan.is