7:49
{mosimage}
Nú styttist í úrslitaeinvígi KR og Grindavíkur í Iceland Express deild karla. Klukkan 16 á morgun mun Kristinn Óskarsson kasta boltanum á loft og liðin munu berjast fram á síðasta blóðdropa. Karfan.is hefur fengið nokkra sérfræðinga til að spá fyrir um þetta einvígi.
Byrjum á Jóni Kr. Gíslasyni fyrrverandi leikmanni og þjálfara Keflvíkinga og A landsliðs karla.
”Ég á von frábærri rimmu og jöfnum leikjum. Liðin "matcha" vel upp og breiddin er svipuð hjá liðunum. Það er tvennt sem ég held að ráði úrslitum. Annars vegar þarf Páll Axel að vera í stuði (og heill) ef Grindavík á að vinna KR þrisvar, hann þarf að skila slatta af stigum og draga athyglina af Brenton og Nick í sókninni. Ef Palli er ekki orðinn góður í hnénu, þá veðja ég á að Helgi Jónas stigi enn meira upp og sýni gamla góða takta. Hins vegar þurfa Grindvíkingar að draga úr stigaskori bakvarðartvíeykisins hjá KR, snillinganna Jóns Arnórs og Jakobs. Það á að skylda unga körfuboltamenn að horfa á alla leiki með þeim félögum, hrein unun að sjá allar aðgerðir þeirra bæði í sókn og vörn og sömuleiðis ákvarðanatöku þeirra. Frábært að hafa þá hér á landi í vetur.
Þá held ég að óvænt tap KR gegn Stjörnunni í bikarúrslitunum muni hjálpa þeim í rimmunni, þeir ætla sér sennilega ekki að vera þátttakendur í einu mesta "floppi" keppnistímabils félags frá upphafi úrvalsdeildarinnar, þ.e. ef KR missir líka af Íslandsmeistaratitlinum. Ég vona að rimman fari í 5 leiki og held að KR vinni í hreinum úrslitaleik á heimavelli.
Til vara veðja ég á að KR bursti Grindavík í þremur leikjum!”
Mynd: Einar Falur Ingólfsson