Þrettándu umferð Iceland Express deildar karla lauk í kvöld með þremur leikjum sem allir áttu það sameiginlegt að vinnast með stórum mun. Stjarnan fékk rassskellingu í Keflavík, ÍR fékk kennslustund frá erkifjendum sínum í KR og Blikar voru kjöldregnir í Stykkishólmi.
Snæfell burstaði Breiðablik 109-74 þar sem Sigurður Þorvaldsson var með 22 stig en Hlynur Bæringsson með 21 stig og 18 fráköst í liði Snæfells. Hjá Blikum var Jonathan Schmidt með 19 stig og 7 stoðsendingar.
Keflvíkingar tóku á móti toppliði Stjörnunnar og rassskelltu þá öðru sinni í vetur. Að þessu sinni var sigur Keflavíkur stór eða 118-83! Draelon Burns hefur verið að finna sig vel sem nýr leikmaður Keflavíkur en hann setti niður 30 stig en þrír leikmenn Keflavíkur skoruðu 22 stig eða meira í kvöld. Gunnar Einarsson var með 23 stig og Hörður Axel Vilhjálmsson með 22 stig. Hjá Stjörnunni var Justin Shouse atkvæðamestur með 21 stig.
KR komst á toppinn með Njarðvík eftir 76-103 útisigur á erkifjendum sínum í ÍR. Framan af stefndi í hörkuleik en KR-ingar voru einráðir í síðari hálfleik og buðu upp á óteljandi glæsitilþrif þar sem þeir Semaj Inge og Jón Orri Krisjánsson fóru fremstir í flokki. Inge lauk leik með 29 stig í liði KR en hjá ÍR var Nemanja Sovic með 22 stig.
ÍA lagði Ármann 103-95 í 1. deild karla en Skagamenn voru að elta lungann úr leiknum en höfðu sigur engu að síður eftir framlengingu.
Leikur Vals og Hauka og Þór Þorlákshafnar og Skallagríms stendur nú yfir og er úrslita að vænta úr þeim innan skamms.
Ljósmynd/ Steinar Kaldal til varnar í Kennaraháskólanum í kvöld