spot_img
HomeFréttirUpphitun fyrir einvígi kvöldsins

Upphitun fyrir einvígi kvöldsins

 

Úrslitakeppni Dominos deildar karla hófst í gær með tveim skemmtilegum leikjum. Veislan heldur áfram í kvöld þegar Stjarnan tekur á móti Njarðvík og Þór Þ. sækir Hauka heim. Hér að neðan verður farið yfir einvígi kvöldsins og liðin krufin.

 

Stjarnan – Njarðvík

Fjölmargir eiginleikar gera þetta einvígi verulega áhugavert og spennandi. Aðstoðarþjálfari Njarðvíkur Teitur Örlygsson kemur aftur í Garðabæinn þar sem hann þjálfaði Stjörnuna í nokkur ár. Leikir liðanna á tímabilinu hafa verið svakalegir, hitinn og spennan mikil. Liðin mættust einnig í átta liða úrslitum í fyrra þar sem Njarðvík hafði sigur 3-2, þá voru allir leikirnir háspennuleikir. Það gefur okkur fögur fyrirheit um það sem framundan er. 

Stjarnan hefur sigrað báða leiki þessara liða á tímabilinu en ljóst er að þeir munu ekki fara létt í gegnum þetta einvígi. Liðið endaði tímabilið vel og stal öðru sætinu af Keflavík í lokaumferðinni. Óstöðugleiki hrjáði liðið verulega í byrjun tímabils þar sem Stjarnan virtist vera lífsómögulegt að eiga tvo góða leiki í röð. Hrafn og Pétur virtust þó vera að ná upp stöðugleika undir lok tímabilsins og verður fróðlegt að sjá hvort þeir taki það með sér inní úrslitakeppnina. 

Miklar væntingar voru gerðar til Njarðvíkur fyrir tímabil og ekki minnkuðu þær þegar Haukur Helgi Pálsson kom til liðs við liðið í upphafi tímabils. Liðið hefur sýnt góðar rispur en meiðsli og kanaskipti hafa gert liðinu erftir fyrir að finna takt. Liðið er frábærlega skipað og er breiddin nokkur hjá þeim. Þjálfarateymi þeirra Friðriks Inga og Teits Örlygssonar er rándýrt og mun reynsla þeirra og sigurvilji koma liðinu langt. 

Áhugavert verður að sjá hvort Stefan Bonneau spilar mínútur í einvíginu en hann hefur verið á bekknum í síðustu leikjum og spilað með varaliði Njarðvíkur. Liðin tvö eru áþekk að gæðum og er ljóst að ef bæði lið haldast heil og spila eftir getu, þurfa stuðningsmenn þessara liða að birgja sig upp af hjartalyfjum því spennan verður við hættumörk. 

 

Leikur 1 Föstudagur – 18. mars kl. 19:15 – Stjarnan-Njarðvík
Leikur 2 Mánudagur – 21. mars kl. 19:15 – Njarðvík-Stjarnan
Leikur 3 Fimmtudagur – 24. mars kl. 19:15 – Stjarnan-Njarðvík
Leikur 4 Þriðjudagur – 29. mars kl. 19:15 – Njarðvík-Stjarnan (ef þarf)
Leikur 5 Föstudagur – 1. apríl kl. 19:15 – Stjarnan-Njarðvík (ef þarf)


 

Stjarnan

Tölfræði líklegs byrjunarliðs:

Marvin Valdimarsson – 10,4 stig, 5,3 fráköst, 1,1 stoðsending og 12,1 framlagsstig
Tómas Þórður Hilmarsson – 6,7 stig, 6,8 fráköst, 0,8 stoðsending og 10,8 framlagsstig
Justin Shouse – 19 stig, 5,7 fráköst, 5,6 stoðsendingar og 20,9 framlagsstig
Tómas Heiðar Tómasson – 12,4 stig, 2,5 fráköst, 2,6 stoðsendingar og 9,1 framlagsstig
Al’lonzo Coleman – 20,7 stig, 12,1 fraköst, 4,7 stoðsendingar og 25,5 framlagsstig 

Hvað þarf Stjarnan að gera til að vinna Njarðvík? 

Hið augljósa segir að Stjarnan verður að vinna heimaleikina sína. Það er nefnilega ekkert grín að þurfa að fara með skottið á milli lappana í Ljónagryfjuna og þurfa þangað að sækja sigur. Varnarleikur liðsins hefur í vetur sýnt á sér margar hliðar, verið frábær eins stundina og skelfileg hina svo það er klárt að þeir þurfa að spila agaðan og sterkann varnarleik. Umfram allt þarf Stjarnan að hafa trú á eigin hæfileikum og möguleikum. Tapleikir liðsins í vetur hafa einkennst að vonleysi og volæði sem verður ekki í boði í jafn tæpri rimmu og gegn Njarðvík. 

Mikilvægasti leikmaður?

Marvin Valdimarsson, það eru nokkrir sem koma til greina hér en Marvin er sá leikmaður sem Stjarnan þarf virkilega á því að halda að eigi góðan leik. Hann hefur ekki átt sitt besta tímabil en ef hann spilar vel þá sigrar Stjarnan, svo einfalt er það. Tölfræði síðasta tímabils sýnir að ef Marvin er með framlagsstig yfir 15 þá vinnur Stjarnan og í þeim leikjum sem hann hefur verið slakur hefur Stjarnan tapað. Marvin er hávaxinn bakvörður sem getur skotið, tekið fráköst og spilað frábæra vörn. Hann gerir leikmenn í kringum sig góða og því er það algjör forsenda fyrir góðu einvígi að Marvin verði í toppformi.

Njarðvík

Tölfræði líklegs byrjunarliðs:

Oddur Rúnar Kristjánsson – 10,1 stig, 3,5 fráköst, 3,3 stoðsendingar og 9,6 framlagsstig
Ólafur Helgi Jónsson – 7,3 stig, 3,9 fráköst, 1,5 stoðsendingar og 8,3 framlagsstig
Haukur Helgi Pálsson – 18,4 stig, 7,3 fráköst, 4,1 stoðsending og 21,6 framlagsstig
Jeremy Atkinson – 21,7 stig, 9 fráköst, 3,9 stoðsendingar og 28 framlagsstig
Maciej Baginski – 13.7 stig, 3,9 fráköst, 2,1 stoðsending og 12,6 framlagsstig

Hvað þarf Njarðvík að gera til að vinna Stjörnuna?

Njarðvík þarf að finna taktinn aftur sem hefur horfið nokkuð með meiðslum og breytingum síðustu mánaða. Liðið er mikið stemmningslið og þurfa leikmenn eins og Maciej og Ólafur Helgi að stíga upp og skila góðu framlagi í fjarveru Loga Gunnarssonar. Njarðvíkurhjartað er risastórt í þessu liði og margir uppaldir í liðinu, þeir þurfa að fara eftir klisjunni um að „deyja fyrir klúbbinn“ til að gefa liðinu aukastyrk því það mun muna ákaflega litlu á milli þessara liða. 

Mikilvægasti leikmaður:
 

Það mun mikið mæða á Hauk Helga Pálssyni í þessari rimmu. Hann mun ekki sætta sig við það að detta úr leik í átta liða úrslitum á þessu tímabili. Haukur er einn besti leikmaður deildarinnar og getur á góðum degi unnið leiki uppá eigin einsdæmi og munar heldur betur um það jöfnum leikjum. Vopnabúr Hauks er ótrúlega stórt og yfirgripsmikið sem gerir Stjörnunni erfitt að fyrir í vörninni. Haukur þarf því að nýta það til að finna samherja sem flestir geta skotið stórum skotum. 

 

____________________________________________________________________________________________________________________________________________________

 

Haukar – Þór Þ.

Leikur 1 Föstudagur – 18. mars kl. 19:15 – Haukar-Þór Þ.
Leikur 2 Mánudagur – 21. mars kl. 19:15 – Þór Þ-Haukar
Leikur 3 Fimmtudagur – 24. mars kl. 19:15 – Haukar-Þór Þ.
Leikur 4 Þriðjudagur – 29. mars kl. 19:15 – Þór Þ-Haukar(ef þarf)
Leikur 5 Föstudagur – 1. apríl kl. 19:15 – Haukar-Þór Þ.(ef þarf)

 

Liðin í fjórða og fimmta sæti deildarinnar eru að þessu sinni Haukar og Þór frá þorlákshöfn. Einungis einum sigri munaði á þessum liðum sem sýnir bersýnilega hversu jöfn liðin eru. Tvisvar hafa þessi lið mæst á tímabilinu og hafa Haukar haft nokkuð örugga sigra í þeim báðum. 

Haukar halda áfram að bæta sig með hverju árinu og hafa undir lok tímabilsins stimplað sig inn sem fullþroskað lið sem er tilbúið að hætta að vera efnilegt og verða gott. Liðið vann síðustu átta leiki tímabilsins og hafa því ekki fundið taptilfinninguna síðan í janúar. Haukar koma því fullir af sjálfstrausti í úrslitakeppnina og ætla sér sjálfsagt að gera betur en í fyrra þegar liðið tapaði tvem fyrstu leikjum keppninnar. 

Þór sem komst í bikarúrslitaleikinn í fyrsta skipti í ár þarf að halda í hungrið að gera betur. Liðið missti smá takt eftir bikarúrslitaleikinn og voru ekki eins sannfærandi og fyrir áramót. Liðið hefur spilað stórskemmtilegan körfubolta á löngum köflum og er það ekki síst töframanninum Vance Hall að þakka. Kauði virðist geta gert allt í körfubolta þar sem vopnabúr hans er sneysafullt, hann hefur passað eins og flís við rass í lið Þórs. 

Rimma þeirra Ragnars og Brandon Mobley verður áhugaverð en Mobley getur dregið Ragnar nokkuð útúr teignum sem gerir honum erfitt fyrir. Kári Jónsson var valinn besti leikmaður seinni umferða Dominos deildarinnar og bara það að horfa á þennan dreng spila körfubolta er nægilega góð ástæða til að mæta á leik þessara liða. 

Lítið þarf útaf að bera til að þetta einvígi snúist að báðum liðum og eru leikir þessara liða klárlega martröð þeirra sem stunda veðmál þar sem bæði lið eru frekar óútreiknanleg. 

 

Haukar

Tölfræði líklegs byrjunarliðs:

Finnur Atli Magnússon – 10,4 stig, 6,9 fráköst, 2,9 stoðsendingar, 17 framlagsstig
Haukur Óskarsson – 13,5 stig, 4,3 fráköst, 2 stoðsendingar, 10 framlagsstig
Kári Jónsson – 17,3 stig, 5,2 fráköst, 5,5 stoðsendingar, 19,7 framlagsstig
Emil Barja – 8,7 stig. 6,7 fráköst, 5 stoðsendingar, 15 framlagsstig
Brandon Mobley – 21,8 stig, 9,9 fráköst, 2 stoðsendingar, 21,8 framlagsstig

Hvað þurfa Haukar að gera til að vinna Þór?

Haukar þurfa að mæta einbeittir til leiks og spila sinn leik. Hafa verið mjög sveiflukenndir á síðustu árum og þurfa að koma í veg fyrir svoleiðis vandræði. Þetta árið er ekki hægt að tala um reynsluleysi liðsins þar sem liði hefur verið áður í þessari stöðu. Haukar hafa haldið sama kjarna síðustu ár svo þeir þekkja hvern annan vel og ættu nú að vera í stakk búnir að gera alvöru atlögu að úrslitarimmunni. Lykilleikmenn Hauka þurfa að skila góðu framlagi og mega ekki fara of snemma í sumarfrí.

Mikilvægasti leikmaður:

Einn þeirra reynslumesti leikmaður, hefur miðað við aldur verið lengi í aðalhlutverki í Haukum. Ef Emil tekur skrefið úr því góðum leikmanni í frábæran þá er Haukaliðið orðið ansi óárennilegt.  Emil hefur verið leiðtogi liðsins síðustu ár og ef hann helst heill og hættir að lenda í villuvandræðum þá má bóka Hauka í efstu þrjú sæti deildarinnar. 

Þór Þ.

Tölfræði líklegs byrjunarliðs:

Ragnar Ágúst Nathanelsson – 13,3 stig, 12 fráköst 1,1 stoðsendingar, 21,8 framlagsstig
Vance Hall – 23,9 stig, 6,7 fráköst, 4,5 stoðsendingar, 23,1 framlagsstig
Emil Karel Einarsson – 9,3 stig, 4,8 fráköst, 3,1 stoðsendingar, 11,8 framlagsstig
Ragnar Örn Bragason – 9,4 stig, 1,6 fráköst, 1,9 stoðsendingar, 8,5 framlagsstig
Þorsteinn Már Ragnarsson – 8,8 stig, 4,3 fráköst, 1,7 stoðsendingar, 9,1 framlagsstig

Hvað þarf Þór að gera til að sigra Hauka? 

Þrátt fyrir að vera með tvo sterka miðherja í liði sínu er Þór í áttunadæti yfir flest fráköst í deildinni í vetur sem verður að teljast lélegt. Þetta þarf Þór helst að bæta til að eiga séns í Hauka sem tóku að meðaltali flest fráköst í deildinni. Græni drekinn þarf að vera til staðar eins og meirihluta þessa tímabils til að styðja við sitt lið. Þór hefur ekki yfir gríðarlegri breidd að spila og þurfa því allir leikmenn sem spila að skila einhverju framlagi í þessu einvígi. 

Mikilvægasti leikmaður:

Emil Karel Einarsson er X-factor liðsins. Fer oft lítið fyrir honum á vellinum en hann skilar sínu hlutverki alltaf 110%. Frábær varnarmaður sem getur einnig sett stór skot og dregið sitt lið áfram. Hann er sá leikmaður sem getur tekið frammistöðu Þórs upp um nokkur stig og þess vegna mikilvægur fyrir Þór ef þeir vilja taka bikarinn með til Þorlákshafnar.

 

Texti / Ólafur Þór Jónsson

 

Myndir / Davíð Eldur

Fréttir
- Auglýsing -