spot_img
HomeFréttirUngu strákarnir hafa unnið fyrir því að leika í meistaraflokki

Ungu strákarnir hafa unnið fyrir því að leika í meistaraflokki

 
Tómas Holton er nýráðinn þjálfari Fjölnismanna í Iceland Express deild karla eftir að Bárður Eyþórsson sagði starfi sínu lausu. Tómas er enginn nýgræðingur í sportinu og var m.a. spilandi þjálfari hjá Val og Skallagrím. Karfan.is ræddi við Tómas um nýja starfið og segist hann taka við góðu búi úr höndum Bárðar.
„Þetta kom mjög óvænt upp á, það var hringt í mig síðasta föstudag og mér tilkynnt að Bárður væri hættur og það var eitthvað sem svo sagði mér að þetta væri rétti tíminn til að byrja aftur,“ sagði Tómas sem síðustu ár hefur verið við yngriflokkaþjálfun hjá Fjölni.
 
„Ég þekki strákana í liðinu mjög vel og ef það var eitthvað lið inni í myndinni þá var það þetta svo ég ákvað að slá til. Ég hef þjálfað ansi marga af þessum leikmönnum þar sem ég var ein þrjú ár í röð í yngriflokkaþjálfun hjá 1991 árgangnum,“ sagði Tómas en sonur hans Tómas Heiðar leikmaður meistaraflokks er einmitt í 1991 árgangnum sem unnið hefur Íslandsmótið í sínum árgangi síðustu sjö ár í röð!
 
Verður sonur þinn þá ekki sjálfkrafa í byrjunarliðinu með 39 mínútur í öllum leikum?
„Ég treysti mér ágætlega til að ráða við það verkefni að þjálfa hann enda hef ég stýrt bæði honum og dóttur minni áður í yngri flokkum,“ svaraði Tómas í léttum dúr en sonur hans og nafni stimplaði sig rækilega inn í úrvalsdeildina á síðustu leiktíð með frábærri frammistöðu í Fjölnisliðinu.
 
„Það auðveldaði ákvörðunina að fara að þjálfa aftur að vera með strák í meistaraflokk karla og svo er dóttir mín leikmaður með meistaraflokki kvenna. Tími minn með fjölskyldunni er þannig að aukast og því lít ég mjög jákvæðum augum á þetta verkefni. Það er oftar sem menn fórna tíma með fjölskyldunni fyrir svona starf en nú er þessu öfugt farið,“ sagði Tómas en nú tekur hann við búinu af Bárði og ber Tómas honum söguna vel.
 
„Bárður er duglegur þjálfari, hann er búinn að vera á fullu síðustu þrjú tímabil og mikið hefur verið hugsað um að halda þessum ungu leikmönnum við efnið. Bæði þá sem eru í meistaraflokk og eins yngri leikmenn og ég græði á því hvað hann hefur verið duglegur. Ungu leikmenn Fjölnis stóðu sig vel í fyrra enda voru þeir margir sem fengu fyrsta alvöru árið sitt í meistaraflokki og komu mjög vel út, ég tek því við góðu búi,“ sagði Tómas en hver er staðan á leikmannamálum liðsins? Níels Dungal farinn í ÍR, ekki búið að ráða Bandaríkjamann og einhverjar sögur eru á kreiki um að Ingvaldur Magni leiki ekki með liðinu á næstu leiktíð.
 
„Christopher Smith er ofarlega á lista enda hef ég heyrt að hann sé góður liðsfélagi og að almenn ánægja hafi ríkt með hann á síðasta tímabili,“ sagði Tómas en varðandi Magna kvaðst hann ekki viss í sinni sök enda aðeins nokkurra daga gamall í nýja starfinu.
 
„Ég tel að við náum að halda nokkurnveginn sama hóp en ég er spenntur fyrir liðinu með svona marga unga og sterka leikmenn innanborðs. Ég er fylgjandi því að gefa þeim frekar tækifæri en að hugsa um hvaða leikmenn ég gæti tekið til mín. Ungu strákarnir hafa unnið fyrir því að leika í meistaraflokki eftir góðan árangur í yngri flokkum og ég sé ekki fyrir mér að ég leiti að einhverjum öðrum leikmönnum til að sjá um hlutina, því verður það mikilvægara að erlendi leikmaðurinn okkar sé þeim mun sterkari,“ sagði Tómas sem í á síðasta tímabili lýsta fjölda leikja á Fjölnir TV í beinni netútsendingu. Hans krafta verður því ekki viðnotið í Dalhúsum í þeim efnum næsta tímabil og því von að ný netútsendingastjarna sé í fæðingu í Grafarvoginum.
 
Ljósmynd/ Tómas Holton er mættur á nýjan leik í úrvalsdeildina.
 
Fréttir
- Auglýsing -