spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Öruggur Hattarsigur á vængbrotnum Grindvíkingum

Umfjöllun: Öruggur Hattarsigur á vængbrotnum Grindvíkingum

ÍG hefur verið spútniklið 1. deildar karla í körfuknattleik það sem af er. Liðið sem komst upp úr 2. deild í vor sat fyrir leikinn gegn Hetti á Egilsstöðum í gær í 3. sæti deildarinnar og hafði unnið 4 leiki en tapað 1. Heimamenn voru hins vegar ekki langt undan í 5. sæti og tilbúnir til að klifra hærra eftir að hafa unnið þrjá leiki í röð.
Það varð ljóst um leið og gestirnir mættu til leiks að það yrði við ramman reip að draga enda vantaði margar helstu skrautfjaðrir í höfuðskraut þeirra Grindjána. Enginn Guðmundur Bragason, enginn Helgi Jónas Guðfinnsson eða Nökkvi Már Jónsson og einnig vantaði Helga Má Helgason og Óskar Pétursson. Hattarmenn hljóta því að hafa verið nokkuð öruggir með sig en það kann aldrei góðri lukku að stýra. Í upphafi leiks virkuðu heimamenn ekki tilbúnir og gestirnir náðu með góðri baráttu að halda leiknum spennandi í fyrsta fjórðungi. Sóknarleikur Hattar var lélegur í upphafi og munaði þar töluvert um að miðherji þeirra, Trevon Bryant náði sér engan veginn á strik og átti það raunar við bæði í vörn og sókn. Einstaklingsframtak Michael Sloan hélt Hetti inni í leiknum á þessum kafla og skoraði hann 13 stig í 1. fjórðungi en staðan var 19-17 að honum loknum.
 
Í öðrum leikhluta virtist sem að getumunur liðanna kæmi í ljós. Hattarmenn náðu að stilla betur saman strengi, ákvarðanatakan var betri og fleiri leikmenn stigu upp. Í hálfleik var staðan 43-27 og eiginlega orðið ljóst að það þyrfti mikið að gerast til að ÍG ætti að taka eitthvað heim með sér úr þessum leik.
 
Síðari hálfleikur var nokkurs konar endurtekning hins fyrri. Höttur byrjaði á hælunum og með góðri baráttu minnkuðu gestirnir muninn í 8 stig. En lengra komust þeir ekki og Hattarmenn náðu smám saman góðum tökum á leiknum á ný. Staðan eftir 3. leikhluta 71-51 og í fjórða leikhluta sprengdu heimamenn gestina endanlega af sér og lokatölur 105-69.
 
Það verður seint sagt að leikurinn hafi verið prúðmannlega leikinn. Þó nokkuð var um pústra og hrindingar í teignum og var alveg ljóst að Trevon Bryant var ekki ánægður með hversu mikið honum þótti mikið lægri varnarmenn ÍG fá að ýta við sér. Í þriðja leikhluta endaði Viðar Örn Hafsteinsson þjálfari heimamanna í gólfinu eftir viðskipti við Davíð Arthúr Friðriksson sem uppskar ásetningsvillu við lítinn fögnuð gestanna. Hinn sami Davíð átti síðan skrautlega tilburði sem áttu meira skylt við amerískan fótbolta en annað, þegar hann reyndi að stela bolta af Bjarka Oddssyni í fjórða leikhluta. Eitthvað fór það í skapið á Bjarka og í næstu sókn endaði Davíð í gólfinu eftir viðskipti þeirra. Ekki sáu dómarar leiksins þó ástæðu til að taka sérstaklega á þessum atvikum með öðru en venjulegu villuflauti og leið leikurinn nokkuð tíðindalaust eftir þetta.
 
Lokatölur leiksins tala sínu máli. Hattarmenn voru miklu betri og þegar að þeir settu í gír í fjórða leikhluta áttu ÍG menn engin svör. Michael Sloan var yfirburðamaður í dag með 31 stig og 8 stoðsetningar. Trevon Bryant skoraði 21 stig og tók 12 fráköst. Auk þeirra áttu Kristinn Harðarson, Bjarki Oddsson og Eysteinn Bjarni Ævarsson flottan leik og Viðar átti góða innkomu með 13 stig á 11 mínútum og frábæra skotnýtingu. Bestur gestanna var hinn eldsnöggi Orri Freyr Hjaltalín sem skoraði 15 stig og áttu varnarmenn Hattar í miklum vandræðum með hann. Stigahæstur var Haraldur Jón Jóhannesson með 17 stig. Auk þeirra átti Ásgeir Ásgeirsson góða spretti í erfiðum slag undir körfunni og Árni Stefán Björnsson sýndi að þyngdarlögmálið er ekkert lögmál og splæsti í 13 stig.
 
Mynd/ Spilandi þjálfari Hattar, Viðar Örn Hafsteinsson, gerði 13 stig gegn ÍG í gær.
 
Umfjöllun og mynd / Stefán Bogi  
Fréttir
- Auglýsing -