Gulir og glaðir lögðu línurnar snemma í DHL-Höllinni í kvöld, varnarleikurinn yrði í fyrirrúmi og KR skoraði einungis 10 stig í fyrsta leikhluta og buðu stuðningsmönnum sínum upp á einhverja verstu frammistöðu liðsins á heimavelli í háa herrans tíð. Grindvíkingar með fjögurra stiga forskot í deildinni eftir kvöldið pökkuðu röndóttum saman þar sem lokatölur reyndust 59-85! Ef einhverjum fannst toppliðið ekki vera að leika nægilega sannfærandi fyrir kvöldið í kvöld þá ættu Grindvíkingar að hafa tekið af öll tvímæli.
Fannar Ólafsson snéri aftur til liðs við KR í kvöld og þegar öllu er á botninn hvolft mátti nú kannski ekki búast við of miklu af honum. Fannar lék í tæpar fimm mínútur og komst hlutfallslega vel frá leiknum miðað við aðra leikmenn liðsins sem hafa æft með því síðan í sumar. Einn leikmaður reyndist með lífsmarki hjá KR og var það Finnur Atli Magnússon, hinir þurfa að gangast undir ítarlega naflaskoðun.
Grindvíkingar ógnuðu úr öllum áttum eins og marghöfða skrímsli, óeigingjarn sóknarleikur sem KR vörnin átti fá svör við. Varnarleikurinn var glæsilegur, í teignum jafnt sem fyrir utan og leikmenn eins og Edward Horton og Hreggviður Magnússon gerðu samtals tvö stig
Kristófer Acox var í byrjunarliði KR í kvöld og gerði fyrstu stig liðsins, það var svona einn af jákvæðu punktunum fyrir KR sem og frammistaða Finns Atla. Grindavík leiddi 10-24 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Páll Axel Vilbergsson kom sprækur inn af bekknum í fyrsta leikhluta og setti niður fimm stig í röð.
Meira jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta en sóknarleikur KR var áfram hugmyndasnauður og nýtingin í sögulegu lágmarki. J´Nathan Bullock gerði fjögur stig í röð og kom Grindavík í 23-39 með handsprengju-troðslu svo allt útlit var fyrir að karfan myndi ekki lifa árásina af.
KR minnkaði muninn í 27-39 með litlum neista en Grindvíkingar slökktu strax í heimamönnum og gerðu næstu fjögur stig og leiddu 27-43 í leikhléi. Finnur Atli var með 11 stig og 8 fráköst í hálfleik en J´Nathan Bullock var í góðum gír með 13 stig hjá Grindavík.
Bullock opnaði síðari hálfleik með þrist og staðan 27-46 og aftur var hann með þrist og breytti stöðunni í 31-51 þegar þrjár mínútur voru liðanar af síðari hálfleik og munurinn orðinn 20 stig!
Þegar ein mínúta var eftir af þriðja leikhluta voru þeir Edward Horton og Hreggviður Magnússon ekki komnir á blað og heimamenn engu nær um hvernig þeir skyldu verjast gegn Grindavík. Sigurður Gunnar Þorsteinsson fékk svo sína fjórðu villu í liði Grindavíkur en það kom ekki að sök, Grindavík ætlaði sér aldrei að hleypa KR inn í dæmið.
Í fjórða leikhluta tók það liðin tvær mínútur að koma boltanum í körfuna og var Páll Axel Vilbergsson þar að verki. Emil Þór Jóhannsson svaraði með sóknarfrákasti sem hann tróð viðstöðulaust yfir Grindvíkinga en ekki einu sinni þessi sirkustilþrif Emils dugðu til að kveikja neistann sem KR vantaði.
Umræðan í stúkunni fór ekkert framhjá þeim sem voru í DHL-Höllinni og var erfiðum spurningum varpað fram, spurningum eins og – verða Edward Horton og David Tairu með atvinnu eftir frammistöðu kvöldsins?
Lokatölur reyndust svo 57-85 og Grindavík komið með fjögurra stiga forskot í deildinni. J´Nathan Bullock lauk leik með 25 stig og 9 fráköst í liði Grindavíkur en þeir Giordan Watson, Ómar Örn Sævarsson og Páll Axel Vilbergsson skiluðu allir inn góðu dagsverki. Besti maður leiksins var þó Grindavíkurvörnin.
Finnur Atli Magnússon gerði 19 stig og tók 14 fráköst í liði KR og næstur honum var David Tairu með 11 stig. Ótrúlegt andleys í herbúðum KR varð þeim að falli í kvöld og röndóttir geta mögulega huggað sig við það að erfitt verður fyrir jafn vel mannað lið að leika mikið verr en þeir gerðu í kvöld. Á hinn bóginn geta þeir kvatt innbyrðisviðureignina gegn Grindavík.
KR afrekaði það í kvöld að setja ekki niður einn einasta þrist í 11 skottilraunum og vera með 38% nýtingu í teignum. Ekki vænlegt til árangurs í toppslag sem því miður olli vonbrigðum sem slíkur en gæðin í leik Grindavíkur voru ánægjuleg og undirstrika að þeir sem hafa áhuga á því að vinna einhverja titla þetta tímabilið verði að fara í gegnum Grindavík.
Stigaskor:
KR: Finnur Atli Magnusson 19/14 fráköst, David Tairu 11/4 fráköst, Kristófer Acox 6, Skarphéðinn Freyr Ingason 6, Emil Þór Jóhannsson 6, Martin Hermannsson 4, Ólafur Már Ægisson 2, Hreggviður Magnússon 2, Björn Kristjánsson 2, Jón Orri Kristjánsson 1/5 fráköst, Fannar Ólafsson 0, Edward Lee Horton Jr. 0.
Grindavík: J’Nathan Bullock 25/9 fráköst, Giordan Watson 18/4 fráköst/5 stoðsendingar, Ómar Örn Sævarsson 12, Páll Axel Vilbergsson 11/8 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 7/6 fráköst, Ólafur Ólafsson 7/6 fráköst, Þorleifur Ólafsson 3, Björn Steinar Brynjólfsson 2, Þorsteinn Finnbogason 0, Einar Ómar Eyjólfsson 0, Ármann Vilbergsson 0, Jóhann Árni Ólafsson 0/4 fráköst.
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Björgvin Rúnarsson
Mynd og umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]