Valskonur bundu í kvöld enda á langa taphrynu með öruggum 89-64 sigri á Fjölni í Iceland Express deild kvenna. Nokkuð jafnræði var með liðunum framan af en á lokasprettinum stakk Valur af og létu leikmenn liðsins ekki standa á fagnaðarlátunum er lokaflautið ómaði um Vodafonehöllina, sex leikja taphrina á enda! Sex leikja taphrina fædd hjá Fjölni.
Brittney Jones, leikstjórnandi Fjölnis, er einhver besti leikmaður deildarinnar og gegn henni mættu Valskonur með Box-1 vörn og lukkaðist hún vel. Jones átti aldrei greiða leið upp að körfunni og mátti hafa sig alla við að finna þægileg skot fyrir utan.
Hrósa verður Ágústi Sigurði Björgvinssyni fyrir sitt framlag í leiknum en þjálfarinn stal tveimur boltum, eins ótrúlegt og það kann að hljóma. Ágúst klæddist blárri treyju á hliðarlínunni í kvöld, Fjölnir lék í bláum búningum og í tvígang sendu þær boltann rakleiðis til Ágústar. Tölfræðin er hörð móðir og því er þetta bara unninn liðsbolti hjá Val, annað yrði eflaust illa séð hjá körfuknattleiksforystunni.
Melissa Leichlitner var áberandi í Valsliðinu í upphafi leiks og var komin með 7 stig þegar Valur leiddi 17-10. Leichlitner var svo aftur á ferðinni þegar 40 sekúndur voru eftir af upphafsleikhlutanum og kom Val í 21-15 með þriggja stiga körfu og varð það lokastaða leikhlutans.
Þórunn Bjarnadóttir gerði 13 stig og tók 6 fráköst hjá Val í kvöld en hún var sérlega spræk í öðrum leikhluta og dreif Valskonur áfram. Fjölnir var aldrei langt undan og Valur leiddi 42-35 í hálfleik þar sem Melissa var með 12 stig og Þórunn 8 hjá Val en í liði Fjölnis var Brittney Jones með 12 stig og Birna Eiríksdóttir 11.
Varnarleikur Vals var hvað þéttastur í þriðja leikhluta og því fór bilið millum liðanna fljótlega að aukast. Valur fékk ógnanir úr nokkrum áttum, Leichlitner og Guðbjörg Sverrisdóttir voru beittar og þær Kristrún Sigurjónsdóttir og Þórunn Bjarnadóttir voru einnig ógnandi. Hjá Fjölni vantaði að Katina Mandylaris væri meira ógnandi í sókninni því fljótt bráði af Brittney og Birnu. Valskonur leiddu 60-48 eftir þrjá leikhluta.
Í fjórða leikhluta varð munurinn enn meiri, sóknarleikur gestanna var einsleitur og á 40 mínútum náðu þær sjaldan góðum takti gegn Box-1 vörn Valskvenna. Þegar 4.10mín. voru til leiksloka setti María Ben Erlingsdóttir stökkskot við endalínuna fyrir Val og breytti stöðunni í 74-54 og þar með var björninn unninn, lokatölur reyndust svo 89-64 Val í vil.
Stigaskor:
Valur-Fjölnir 89-64 (21-18, 21-17, 18-13, 29-16)
Valur: Guðbjörg Sverrisdóttir 20/6 fráköst/6 stoðsendingar, Melissa Leichlitner 19/5 fráköst/7 stoðsendingar, Þórunn Bjarnadóttir 13/6 fráköst, Kristrún Sigurjónsdóttir 11/5 fráköst, Berglind Karen Ingvarsdóttir 9, María Ben Erlingsdóttir 8/11 fráköst, Signý Hermannsdóttir 4, Unnur Lára Ásgeirsdóttir 3/4 fráköst, Hallveig Jónsdóttir 2, Súsanna Karlsdóttir 0, María Björnsdóttir 0, Ragnheiður Benónísdóttir 0.
Fjölnir: Brittney Jones 20/9 fráköst, Birna Eiríksdóttir 20/4 fráköst, Katina Mandylaris 7/15 fráköst, Eva María Emilsdóttir 6, Bergdís Ragnarsdóttir 5/4 fráköst, Erla Sif Kristinsdóttir 4/4 fráköst, Heiðrún Harpa Ríkharðsdóttir 2, Erna María Sveinsdóttir 0, Dagbjört Helga Eiríksdóttir 0, Margrét Loftsdóttir 0, Margrét Helga Hagbarðsdóttir 0, Sigrún Gabríela Jóhannsdóttir 0.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Aðalsteinn Hrafnkelsson
Mynd og umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]