Það var leikur kattarins að músinni í Ljónagryfjunni í kvöld þegar Ljónynjurnar í Njarðvík tóku á móti blómastúlkunum úr Hamri. Skemmst er frá því að segja þá tók Njarðvík öll völd á vellinum strax á fyrstu mínútu og sigruðu að lokum auðveldlega 77:53
Sem fyrr segir þá tóku heimastúlkur strax til handanna í fyrsta fjórðung og áttu Hamar í töluverðum vandræðum gegn mjög svo sprækri vörn Njarðvík. 23:7 eru líkast til tölur sem maður sér sjaldan eftir heilan fjórðung. Í öðrum fjórðung hægðist lítið að sóknarleik heimastúlkna þó svo að varnarleikurinn hafi aðeins slakað á. Yngri leikmenn liðsins fengu þá þegar að spreyta sig og gerðu ágætlega. Leikur Hamars var ögn skárri en samt aldrei þannig að þær ætluðu sé neitt í þessum leik.
Njarðvíkurstúlkur slökuðu heldur betur á klónni í seinni hálfleik en þá var jafnt á flestum tölum hjá liðunum. Aldrei ógnuðu Hamar hinsvegar sigri Njarðvíkur að þessu sinni og eiga þær eitthvað í land miðað við frammistöðu kvöldsins í að getað haldið í við lið Njarðvíkur.
Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Njarðvíkur gat leyft sér að leyfa öllum leikmönnum að spila og dreifðust mínúturnar vel á hans mannskap. Stighæst hjá Njarðvík var Shanea Baker með 25 stig en svo var það Sara Margeirsdóttir sem nýtti sínar mínútur vel og skoraði 17 stig sem er líkast til hennar hæsta skor í meistaraflokki. Samantha Murphy var allt í öllu hjá Hamri og skoraði rúmlega helming stiga liðsins eða 26 stig.
Mynd: Eyrún Líf Sigurðardóttir reynir að brjótast framhjá vörn Hamars
Mynd/texti: [email protected]