Keflavík tryggði sér sæti í undanúrslitum Lengjubikarsins með því að vinna granna sína úr Njarðvík með 20 stigum, 94-74, en þeir skoruðu 33 stig í 4. leikhlutanum og hreinlega völtuðu yfir granna sína. Þar í fremsta flokki var Jarryd Cole með 27 stig og 16 fráköst og Charles Parker með 23 stig, 10 fráköst og 6 stolna.
Mikil barátta var á fyrstu mínútum leiksins þar sem Keflavík var við stýrið. Eftir rúmlega fimm mínútna leik var Keflavík komið með 10 stiga forskot, 19-9 og lítið að ganga hjá Njarðvíkingunum. Vörnin hjá Keflavík var nokkuð örugg og áttu Njarðvíkingar erfitt með að finna svör við henni og áttu í mestu erfiðleikum að skora fyrstu mínúturnar. Cameron Echols var þó að halda þeim á floti fyrsta leikhlutann sem endaði 24-15 fyrir Keflavík. Steven Gerard var heitur á fyrstu mínútunum og var kominn með 11 stig, þar af 3 þristar.
Annar leikhluti byrjaði líkt og sá fyrsti og allt leit út fyrir að Keflavík myndi sigla yfir Njarðvíkingana. Njarðvík neitaði að gefast upp og eftir mikla baráttu og hertri vörn náðu þeir að komast nær Keflvíkingum. Þegar þrjár mínútur voru eftir var staðan orðin 31-30 þar sem Njarðvík var loks farið að finna svör við vörn Keflavíkur og farnir að herða vörnina sína betur sem leiddi til mistaka hjá Keflavík. En nær komust þeir ekki í þessum leikhluta og í hálfleik var staðan 39-34. Hjá Keflavík var Gerard með 15 stig og hjá Njarðvík var Echols með 14 stig.
Njarðvíkingarnir ætluðu ekki að gefast upp og komu brjálaðir inn eftir leikhlé og komust yfir eftir rúma mínútu í leikhlutanum, 39-41. Allt virtist vera að ganga upp hjá Njarðvík en allt að hrynja hjá Keflavík. Cole var að halda Keflavík uppi sóknarlega. Þegar tvær mínútur voru eftir var Njarðvík yfir 50-53 og virtust ætla að snúa spilinu við. En þá kom Ragnar nokkur Albertsson inn á og gjörsamlega kveikti í Keflavíkurliðinu með tveimur þristum á stuttum tíma og Almar Guðbrandsson ákveður að fylgja á eftir og skellir einum í stuttu fyrir leikhlé og staðan orðin 61-54 fyrir síðasta leikhlutann. Þarna virtist eins og slökkt hefði verið á Njarðvíkingunum og Keflavík komið á skrið. Hjá Keflavík var Cole komin með 17 stig og Gerard með 15. Hjá Njarðvík var Echols með 18 stig og Hjörtur Einarsson með 10.
Fjórði leikhlutinn var gjörsamlega í eigu Keflavíkur og voru þeir komnir með 10 stiga forskot eftir eina mínútu. Eins tilbúnir og Njarðvíkingar komu til leiks eftir hálfleik var ekkert að gerast hjá þeim í þeim fjórða. Eftir tveggja mínútna leik setur Parker niður þrist og staðan orðin 69-56 og Njarðvík tekur leikhlé. Í leikhléinu lítur út fyrir að Einar Árni Jóhannsson segi einhver vel valin orð við dómarann og uppsker tæknivillu fyrir. Parker stígur á línuna og setur bæði vítin ofan í. Þar á eftir kemur svakalegur kafli hjá Keflavík þar sem Parker stelur boltanum hvað eftir annað af Njarðvíkingunum og staðan orðin 76-56. Þar með var sigurinn kominn í höfn og ekkert annað en að halda út leiknum sem þeir gerðu. Keflavík komnir áfram eftir frábæran leik og áttu það svo sannarlega skilið eftir frammistöðu sína í kvöld.
Parker átti hreint frábæran leik fyrir Keflavík og þá sérstaklega í fjórða leikhluta þar sem hann stal boltanum hvað eftir annað af Njarðvíkingunum, þvílík barátta í drengnum. En eins og segir þá lauk hann leiknum með 23 stig, 10 fráköst og 6 stolna. Cole átti einnig flottan leik og endaði með glæsilega tvennu, 27 stig og 16 fráköst. Hjá Njarðvík var Echols með 24 stig og 9 fráköst og Hjörtur Einarsson með 15 stig.
Viðtal við Magnús Þór eftir leik
Viðtal við Friðrik Ragnarsson eftir leik
Viðtal við Hjört Hrafn eftir leik
Viðtal við Friðrik Ragnarsson eftir leik
Viðtal við Hjört Hrafn eftir leik
Stigaskor:
Keflavík: Jarryd Cole 27/16 fráköst, Charles Michael Parker 23/10 fráköst/6 stolnir, Steven Gerard Dagustino 18, Ragnar Gerald Albertsson 8, Almar Stefán Guðbrandsson 6/6 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 6, Halldór Örn Halldórsson 3/4 fráköst, Gunnar H. Stefánsson 3, Andri Daníelsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Valur Orri Valsson 0/6 stoðsendingar, Sigurður Friðrik Gunnarsson 0.
Njarðvík: Cameron Echols 24/9 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 15/5 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 11, Maciej Stanislav Baginski 7, Travis Holmes 7/10 fráköst, Elvar Már Friðriksson 7, Rúnar Ingi Erlingsson 3, Styrmir Gauti Fjeldsted 0, Sigurður Dagur Sturluson 0, Óli Ragnar Alexandersson 0, Oddur Birnir Pétursson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0.
Umfjöllun/ Rannveig Kristín Randversdóttir – [email protected]