spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Íslenska liðið fékk slæma útreið

Umfjöllun: Íslenska liðið fékk slæma útreið

19:16 

 

{mosimage}

 

 

 

Íslenska kvennalandsliðið fékk kennslustund í körfuknattleik í dag á sínum eigin heimavelli. Norðmenn lögðu hálfkæringslegt íslenska liðið að velli með 22 stiga mun, 47-69. Þetta var annar ósigur liðsins í röð en Ísland leikur sinn þriðja leik í B-deild Evrópukeppninnar næsta laugardag þegar Írar koma í heimsókn í Sláturhúsið í Keflavík. Birna Valgarðsdóttir var atkvæðamest í íslenska liðinu í dag með 14 stig.

 

Norðmenn komust í 0-4 í upphafi leiks en Birna Valgarðsdóttir gerði fyrstu stig íslenska liðsins þegar um þrjár mínútur voru liðnar af 1. leikhluta. Íslenska liðið komst svo yfir um miðjan leikhlutann 10-8 en Norðmenn hertu róðurinn og höfðu betur 15-18 þegar 1. leikhluta lauk.

 

Í öðrum leikhluta fór að halla undan fæti hjá íslenska liðinu og gestirnir breyttu stöðunni fljótlega í 17-27 með nokkurri aðstoð dómaranna sem leyfðu Norðmönnum að spila nokkuð fast. Íslenska liðið virtist úrræðalaust í sóknaraðgerðum sínum og létu flest allt fara í taugarnar á sér sem fór miður. Norðmenn héldu fengnum hlut fram að hálfleik og staðan 28-37 í hálfleik.

 

{mosimage}

 

Síðari hálfleikurinn var enn verri hjá íslenska liðinu, Norðmenn léku yfirvegaðan körfubolta og sigldu hægt og bítandi fram úr. Að loknum þriðja leikhluta var staðan 37-51 Norðmönnum í vil og það virtist ekki skipta neinu máli þegar íslenska liðið náði góðum sóknarrispum því Norðmenn svöruðu yfirleitt um hæl. Birna Valgarðsdóttir var að draga vagninn hjá íslenska liðinu en hún átti ekki mikið inni þegar fjórði leikhluti gekk í garð og Norðmenn kafsigldu einbeitningarlaust lið Íslands.

 

Dómarar leiksins voru hrikalega lélegir í dag og það er vægt til orða tekið þegar sagt er að hallað hafi á íslenska liðið. Engu að síður geta íslensku stúlkurnar aðeins kennt sjálfum sér um því það vantaði m.a. mikið upp á framlag frá Hildi Sigurðardóttur og Helenu Sverrisdóttur en þetta eru tveir sterkustu leikmenn liðsins.

 

Guðjón Skúlason, landsliðsþjálfari, var hundfúll í leikslok og sagði að sínir leikmenn hefðu ekki gert það sem lagt var fyrir þá. Einnig sagðist Guðjón ekki nenna að ræða laka frammistöðu dómaranna og bætti við að liðið ætti mikið verk fyrir höndum fyrir næsta leik.

 

Næsti leikur íslenska liðsins er á laugardag í næstu viku þegar Írar koma í heimsókn og fer leikurinn fram í Sláturhúsinu í Keflavík kl. 14:00.

 

Byrjunarlið Íslands í dag:

Signý Hermannsdóttir

Bryndís Guðmundsdóttir

Birna Valgarðsdóttir

Kristrún Sigurjónsdóttir

Helena Sverrisdóttir

 

Stigaskor íslenska liðsins:

Birna Valgarðsdóttir, 14 stig

Helena Sverrisdóttir, 8 stig

Signý Hermannsdóttir, 7 stig

Hildur Sigurðardóttir, 6 stig

Bryndís Guðmundsdóttir, 5 stig

Kristrún Sigurjónsdóttir, 5 stig

María Ben Erlingsdóttir, 2 stig

 

Gangur leiksins:

0-4, 10-8, 15-18

17-22, 18-29, 28-37

35-39, 37-45, 37-51

41-51, 43-62, 47-69

 

nonni@karfan.is

 

 

 

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -