Í annars rólegu og barngóðu sjávarþorpi á suðurströnd Íslands, mættust Þór Þorlákshöfn og Skallagrímur í leik sem að skæri úr um hvort Þórsarar myndu gera sér lítið fyrir og fara í Final-4 á sínu fyrsta ári í Úrvalsdeildinni í langan tíma, eða hvort Borgnesingar myndu skemma partýið og hleypa KR-ingum í Undanúrslit Lengjubikarsins.
Strax frá fyrstu mínútu var þó aldrei vafi um hvort liðið væri í Úrvalsdeild og hvort léki í þeirri fyrstu því að Þórsarar kafsigldu Skallagrímsmenn og gáfu þeim smá hugmynd um hvað biði þeirra. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 24-12 og virtist þetta ætla að verða róleg og notaleg sigling fyrir Þórsara.
Annar leikhluti var þó aðeins jafnari, og virtust Borgnesingar vera búnir að hrista af sér stressið sem fylgir því að mæta í Drekabælið í Þorlákshöfn. Dominique Holmes og Darrell Flake voru grimmir í liði gestana og áttu mikinn þátt í því að minnka forskotið niður í 6 stig, en þá sögðu heimamenn stopp, með Þorstein Már Ragnarsson og Darra Hilmarsson fremsta meðal jafningja, og kláruðu leikhlutann með 13 stiga forskot, 56-43.
Í þriðja leikhluta bættu Þórsarar bara í og juku forskotið jafn og þétt, Skallagrímsmenn virkuðu þreyttir og nýttu heimamenn sér það. Í liði Skallagríms er þó ungur drengur að nafni Hilmar Guðjónsson og spilaði hann úrvals leik. Hann var þeirra langsterkasti maður í þriðja leikhluta og áttu varnarmenn Þórsara í lúmsku basli með stráksa, sem endaði með 11 stig, og þar af 3/5 í þristum. Hann gat þó lítið gert einn á móti sterku liði heimamanna sem enduðu fjórðunginn með 19 stiga forskot, 83-64, og sigurinn nánast í höfn.
Leikurinn dróst svolítið niður í 4. leikhluta, fyrir utan svakalega troðslu að hætti hússins, þegar Þorsteinn Már gaf alley-op sendingu á Mike Ringgold sem kláraði allsvakalega, og trylltist allt í húsinu við þessa fögru sjón. Bæði lið voru búin að sætta sig við niðurstöðu leiksins og fór Benni, þjálfari Þórs, að hleypa ungu strákunum inná, og komu þeir allir nokkuð vel út. Emil Karel átti fína innkomu og skoraði 2 stig og hirti 4 fráköst á þeim 6 mínútum sem hann spilaði. Leikurinn fjaraði út, og urðu lokatölur 97-81, og öruggur sigur Þórsara í höfn.
Stigahæstur heimamanna var Darrin Govens með 24 stig, og fast á hæla hans kom Mike Ringold með 22. Hjá Þórsurum var þó meiri liðsheild að verki heldur en oft áður, og voru allir leikmenn liðsins að spila virkilega vel. Bræðurnir Baldur og Þorsteinn áttu báðir mjög góðan leik, sem og Gummi Jóns, Grétar og Darri, en hann setti 11 stig, var með 11 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Í liði Skallagríms var Darrell Flake stigahæðstur með 21 stig, og eftir honum kom Sigmar Egilsson með 13 stig, og fylgdu svo þrír leikmenn með 11 stigin.
Þegar öllu er á botninn hvolft eru Þórsarar komnir í undanúrslit Lengjubikarsins og mæta þar liði Grindavíkur sem er illviðráðanlegt þessa dagana. Spennandi verður þó að sjá Suðurstrandarliðin mætast, sér í lagi þar sem Grindvíkingar hafa enn ekki mætt liði sem spilar með 6 leikmenn inná vellinum, því að Græni Drekinn er mættur í Úrvalsdeildina, og mun án efa gera Grindvíkingum lífið leitt.
Stigaskor:
Þór Þorlákshöfn: Darrin Govens 24/10 fráköst/6 stoðsendingar, Michael Ringgold 22/4 fráköst, Guðmundur Jónsson 11/5 stoðsendingar, Darri Hilmarsson 11/11 fráköst, Grétar Ingi Erlendsson 10/8 fráköst, Þorsteinn Már Ragnarsson 8, Baldur Þór Ragnarsson 5, Marko Latinovic 3/4 fráköst, Emil Karel Einarsson 2/4 fráköst, Erlendur Ágúst Stefánsson 1, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 0.
Skallagrímur: Darrell Flake 21/7 fráköst, Sigmar Egilsson 13/4 fráköst, Dominique Holmes 11/8 fráköst, Hilmar Guðjónsson 11, Lloyd Harrison 11/7 stoðsendingar, Birgir Þór Sverrisson 8/5 stolnir, Sigurður Þórarinsson 4, Óðinn Guðmundsson 2, Elfar Már Ólafsson 0, Davíð Ásgeirsson 0, Davíð Guðmundsson 0, Andrés Kristjánsson 0.
Umfjöllun/ Heimir Snær Heimisson