16:45
{mosimage}
Bandaríkjamaðurinn Tyson Patterson hefur verið að gera það gott með KR að undanförnu og í vetur hefur hann gert 19,3 stig að meðaltali í leik með KR. Tyson landaði glæsilegri þrennu gegn Haukum á dögunum þegar hann gerði 27 stig, gaf 15 stoðsendingar og tók 10 fráköst. Hann var ekki fjarri því að landa fernu þar sem hann var aukareitis við þrennuna með sjö stolna bolta. KR burstaði leikinn gegn Haukum 105-67. Norður-Karólínu maðurinn Patterson átti svo afbragðsleik gegn Þór Þorlákshöfn í síðustu umferð þar sem hann setti niður 31 stig, gaf 10 stoðsendingar og stal enn og aftur 7 boltum í leiknum. Patterson er lágvaxinn leikmaður en með afbrigðum snöggur og spilar vel uppi samherja sína. Karfan.is tók Patterson tali en hann lék með Grindavík leiktíðina 2002-2003.
,,Boltinn hefur breyst mjög mikið síðan ég var hérna síðast, bæði sókninni hér og vörninni hefur farið fram og öll almenn þróun leiksins,” sagði Patterson í samtali við Karfan.is. Tyson er frá Norður-Karólínu í Bandaríkjunum og var að vonum hæstánægður með sigur þeirra á erkifjendum sínum í Duke á dögunum. ,,Sjálfur lék ég með Appalachian State University í fjögur ár,” sagði Patterson sem er 28 ára gamall.
Tyson telur það raunhæfan möguleika fyrir KR að stefna á toppsætið þrátt fyrir erfiða leikjahrynu sem eftir er hjá KR. Næsti leikur liðsins er gegn ÍR í DHL-Höllinni en svo taka við leikir gegn Njarðvík, Hamar/Selfoss, Tindastól og í síðustu umferð mæta þeir Grindvíkingum, gamla liði Patterson hér á landi. ,,Næstu leikir verða góð prófraun fyrir okkar lið og það er mikilvægt að ná fyrsta sætinu til að hafa heimaleikjaréttinn sín megin,” sagði Patterson.
Bikarhelgin hefur ekki farið fram hjá leikstjórnandanum knáa sem segir ómögulegt að spá fyrir um úrslit í kvennaleiknum. ,,Keflavík og Haukar eru bæði mjög sterk lið en í karlaleiknum eru liðin einnig jöfn og staða þeirra í deildinni segir lítið sem ekkert um getu þeirra,” sagði Patterson sem baðst undan því að spá fyrir um úrslitin.
Hvað finnst Patterson um þjálfara sinn hjá KR, Benedikt Guðmundsson?
,,Benni er mjög varnarsinnaður og hann leggur mikla áherslu á varnarleikinn og þegar það gengur upp þá eru allir leikmenn að leggja sitt af mörkum í liðinu,” sagði Patterson sem hóf leiktíðina af krafti en dalaði smávegis þegar á leið en hefur að undanförnu verið að standa sig með miklum ágætum. ,,Ég legg mjög hart að mér þessa dagana, bæði í ræktinni og á æfingum og það tók vissulega sinn tíma að venjast deildinni en ég er ánægður með mína veru hér hingað til.”
{mosimage}
Það dylst engum að í íslenska boltanum er leikið hratt og mikið um þriggja stiga skot. Patterson hefur ekki farið varhluta af því og segir boltann hér nokkuð frábrugðinn þeim sem spilaður er í Frakklandi. Hann lék með Brest í Frakklandi í tvö tímabil áður en hann kom aftur til Íslands. ,,Það er ekki spurning að þriggja stiga nýtingin mín hefur batnað hér, hér eru fleirri bakverðir í deildinni en tíðkast í Frakklandi. Þar var meira um stærri leikmenn og því fór leikurinn meira fram á blokkinni en gerist hér. Ég elska að spila hraðan bolta svo íslenski boltinn á vel við mig,” sagði Patterson.
Að lokum spurðum við Patterson að því hvaða ráð hann hefði fyrir unga og upprennandi leikmenn?
,,Það er alveg sama hvað þú gerir, þú verður að leggja hart að þér og hafa trú á því sem þú ert að gera, bæði á æfingum og í leikjum,” sagði Patterson að lokum.
Viðtal: [email protected]
Myndir: [email protected] og Stefán Helgi Valsson á www.kr.is/karfa