spot_img
HomeFréttirTorfi Magnússon: Feginn að spila ekki á móti þessum varnarleik sem þeir...

Torfi Magnússon: Feginn að spila ekki á móti þessum varnarleik sem þeir spila í dag

 
Valsmenn fagna um þessar mundir 100 ára afmæli félagsins og hefur félagið lagt mikið kapp á að fagna þessum merka viðburði. Valsmenn hafa alið marga afreksmenn í þeim íþróttum sem þar eru stundaðar og einn af þeim er Torfi Magnússon, fyrrverandi landsliðsmaður í körfubolta sem varð tvöfaldur Íslandsmeistari og þrefaldur bikarmeistari með Val á árunum 1980-1983. Torfi spilaði einnig 131 landsliðsleik fyrir Ísland og því með leikjahæstu landsliðsmönnum sögunnar. Við settumst niður með Torfa að Hlíðarenda þar sem hann hafði verið viðstaddur lokahóf yngriflokka félagsins og ræddum við hann um gullaaldarárin hjá Val og körfuboltan í dag.
Hvað stendur uppúr í sögu körfuknattleiksdeildar Vals?
“Það eru nátturulega þessi ár frá 1979 til 1983, þá vorum við í keppni um alla titla. Nokkur ár á eftir því vorum við í keppni um titilinn þó okkur tækist ekki að vinna neitt þá vorum við í úrslitum fram undir 1990. Svo var eitt ár sem var öflugt, 1992, en eftir það hefur þetta verið upp og niður og ekki mikill stöðuleiki”.
 
Hver er þín besta minning frá þínum tíma í Val?
“Það er nú ekki hægt að taka eitthvað eitt út úr því, þetta er langur tími, einhver 30 ár sem ég hef verið hér. Fyrsti Íslandsmeistaratitillinn kemur fyrst upp í hugan. Það var mjög skemmtilegt”.
 
Valur háði mikla baráttu við Hauka og Njarðvík á þessum árum, voru það þínir erkióvinir?
“Ég hef nú aldrei átt óvini í körfubolta en ég hef átt uppáhalds andstæðinga. Þeir voru það á þessum tíma”.
 
Hverjir voru bestu leikmennirnir sem þú spilaðir á móti?
“Það var skemmtilegast að lenda í því að passa Gunnar Þorvarðarson, var mjög erfiður og leiðinlegur við mann í leik. Gabbaði mann uppúr skónum, gerði aldrei neitt. Hann gat ekkert hoppað en fékk mann alltaf uppí loftið. Hann er ekki eins og sonurinn, er á fleygiferð. Hann lét hina fara á fleigiferð í kringum sig. Var mjög erfiður. En svona fyrsti erfiði mótherjinn sem ég spilaði á móti í meistaraflokki var Einar Bollason. Hann var mjög erfiður og mjög erfitt að stoppa hann”.
 
Hver var besti leikmaðurinn sem þú spilaðir með?
“Þeir voru margir góðir en ætli Þórir Magnússon hafi ekki verið bestur. Hann var lengi vel besti maðurinn. Þú spilaðir með ansi mörgum sem gætu talist til stórra nafna í körfuboltasögunni. Jájá, Pétur spilaði með okkur hérna um tíma, sem er náttúrulega besti körfuboltamaður Íslands og svo var líka Kristján Ágústsson.
 
Ef Íslandsmeistaraliðið sem þú spilaðir með á þessum árum væri að spila í dag, gæti það staðið í efstu liðum?
“Nei, það held ég ekki. Í fyrsta lagi þá fengum við nú fæstir þá grunnþjálfum sem þessir strákar hafa sem eru núna. Það var ekki farið eins djúpt í hlutina með okkur, við vorum ágætis íþróttamenn meira og minna en kunnáttan í leiknum var ekki nærri því eins mikil og hún er hjá leikmönnunum í dag. Ég segi það oft að ég er feginn að ég skuli ekki vera að spila á móti þessari vörn sem menn spila í dag. Þetta er allt annar varnarleikur heldur en þá.

 
Er þetta orðið líkamlegri íþrótt?
Já það þarf nú ekki annað en að skoða myndir af okkur í gamla daga. Við vorum ekki mikið í lyftingarklefanum. Þeir eru miklu sterkari en við vorum.
 
Hvernig heldur þú að standi á þeirri lægð sem hefur verið yfir körfuboltanum í Val?
“Það er margt sem kemur til. Við höfðum góðan kjarna þarna af leikmönnum sem við höfðum í kringum 1980. Fengum góðan leiðtoga inn í liðið, Tim Dwyer, sem dreif okkur með sér áfram í hörkunni. Síðan eftir þetta vorum við með ágætis stjórn og þetta gekk alveg ágætlega. Svo kom tími þar sem við vorum ekki með nema einn formann í deildinni alveg mörg ár í röð og það kann ekki góðri lukku að stýra. Það versta við þetta að það varð enginn stöðuleiki í liðinu og félagsstarfinu almennt”.
 
Á Valur heima á meðal þeirra bestu?
“Já, við eigum alveg heima þar. Margir af þeim leikmönnum sem komu með liðið upp núna eru alveg frambærilegir leikmenn í efstu deild. Einhverjir 6 leikmenn sem gætu vel plummað sig og 7 ef Guðmundur Kristjánsson spilar aftur en hann spilaði ekkert með okkur eftir áramót.
 
Hefur það lið getu til að halda sér uppi?
Já, ég er nú ekki að spá okkur titlinum næst en ég held að við eigum að geta það já. Þeir eru með alveg fína umgjörð um þetta og góða þjálfara. Það á að vera alveg hægt.
 
Hvenær fáum við svo að sjá Val keppa um titla aftur?
“ Það styttist í það. Ef okkur tekst að halda þessu úti núna þannig að við verðum uppi að þá munum við bara eflast og styrkjast. Við höfum allt til þess. Þetta öfluga íþróttafélag hefur bestu aðstöðu á landinu til að spila körfubolta. Það held ég að muni skila sér smátt og smátt”.
 
Nú er nýsammþykkt reglugerð sem leyfir liðum að fá til sín 2 leikmenn frá Bandaríkjunum. Hvernig kemur þessi svokallaða “kanavæðing” þér fyrir sjónir?
“ Ég held að það sé bara betra heldur en að vera bara með fleiri miðlungsgóða leikmenn, þá eigum við möguleika á að fá betri leikmenn. Það er mikill munur á getunni á þeim sem koma frá Ameríku heldur en þeir sem eru með vegabréf hingað og þangað. Þeir eru kannski að ýta út þeim leikmönnum sem ættu betur heima hér. Ég hefði kosið að það væri bara einn útlendingur í liði en það er víst ekki möguleiki”.
 
Hver er að þínu mati besti leikmaðurinn í Iceland Express deildinni í ár?
“Það væri bara ekki sanngjart ef ég færi að dæma það. Ég mæti á leiki í Hlíðarenda og leiki Vals í nágrenninu en ég hef ekki farið á leik í efstu deild í 2 ár held ég. Ég sé einstöku leik í sjónvarpinu.
 
Ertu þá ekki orðinn spenntur að sjá Val spila í efstu deild?
Já ég er spenntur sjá það. Ég held að maður hafi samt ekki þurft að hafa séð mikið af deildinni til þess að vita það að Pavel Ermolinskij átti skilið að vera valinn besti leikmaður Íslandsmótsins. Miðað við það sem ég hef séð til hans skil ég ekki af hverju hann er að spila á Íslandi”.
 
Hvað þarf Valur til að endurtaka gullaldarárin?
“ Við þurfum nátturulega að vera heppnir með erlenda leikmenn. Væntanlega tvo Bandaríkjamenn næsta vetur. Ef við fáum tvo góða Bandaríkjamenn þá eigum við að geta verið með öflugt lið. En það á eftir að taka einhvern tíma að vera svo góðir að þeir geti farið að vinna titla. Ég á ekki von á því að það gerist eldsnöggt. Það þarf alltaf þolinmæði í þetta. Við vorum búnir að bíða lengi eftir fyrsta titlinum. Þórir Magnússon sem ég nefndi hérna áðan var búinn að spila körfubolta í einhver 17-18 ár í meistaraflokki þegar hann innbyrti sinn fyrsta titill og hann lék sjaldan ef einhverntíman betur en í þessum seinasta leik sínum. Það verður þeim mun sætara. En ég á ekki von á að það verði ekkert svo langt í að við verðum að berjast um efstu sætin”.
 
Við þökkum Torfa kærlega fyrir spjallið.
 
Gísli Ólafsson
(myndir úr myndasafni KKÍ)
Fréttir
- Auglýsing -