spot_img
HomeFréttirToppliðið skellti í lás gegn Grindavík

Toppliðið skellti í lás gegn Grindavík

 
KR er deildarmeistari leiktíðina 2009-2010 eftir frækinn 68-44 sigur á Grindavík í toppslag Iceland Express deildar kvenna. Margrét Kara Sturludóttir fór fyrir liði KR í kvöld með 21 stig, 10 fráköst, 4 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Glæsilegur árangur hjá KR sem tryggt hefur sér efsta sæti deildarinnar þegar þrjár umferðir eru enn eftir af riðlakeppninni. Fyrir vikið verður KR ekki haggað af toppnum, mun sitja hjá í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og eiga heimaleikjaréttinn á öll þau félög sem liðið kann að mæta í úrslitakeppninni.
Eins og lokatölur kvöldsins gefa til kynna fór meira fyrir vörninni í kvöld en sóknarleiknum. Bæði lið byrjuðu þó leikinn hratt og vel og undirritaður bjó sig undir ágætis festival en svo var sem skipt væri úr 45 snúningum yfir í 33 og leikurinn pompaði niður í varnarglímu. Guðrún Gróa kann vel við sig í svoleiðis aðstæðum og gerði Grindvíkingum lífið leitt í sóknarleik sínum. Þá var Gróa ekki síðri á hinum endanum og gerði 8 af 13 stigum KR í fyrsta leikhluta og leiddu heimakonur 13-9 að honum loknum.
 
Í liði Grindavíkur var Helga Hallgrímsdóttir að pakka saman Signýju Hermannsdóttur, Unni Töru Jónsdóttur og Helgu Einarsdóttur. Lungann úr leiknum var Helga með fleiri fráköst en turnarnir þrír í liði KR og þegar allt kom til alls voru Signý, Helga og Unnur sameiginlega aðeins með einu frákasti meira en Helga!
 
Margrét Kara tók góðar rispur fyrir KR í öðrum leikhluta og undir lok fyrri hálfleiks virtist sem Grindavíkurvörnin væri að þreytast og því leiddu KR-ingar 34-23 í leikhléi þar sem Margrét Kara var komin með 15 stig en Michele DeVault 10 í liði Grindavíkur.
 
Í þriðja leikhluta gekk liðunum lítt betur að skora en Grindavík náði þó að saxa á forskotið því þær unnu leikhlutann 9-10 þar sem 9 af 10 stigum gestanna komu úr þriggja stiga skotum. Michele DeVault var við frostmark í þriggja stiga skotum sínum en náði að setja fyrsta þristinn sinn í áttundu tilraun og minnkaði muninn í 41-27. Grindvíkingar voru líka komnir í svæðisvörn sem flæktist nokkuð fyrir KR og náðu gular að minnka muninn í 41-33 en KR kom muninum á nýjan leik upp í 10 stig og leiddu 43-33 fyrir fjórða leikhluta.
 
Grindavík komst hvorki lönd né strönd í fjórða leikhluta því Signý Hermannsdóttir lokaði KR teignum og veigruðu gestirnir sér við því að sækja á teiginn því landsliðsmiðherjinn var í ham, varði 7 skot í kvöld og hafði áhrif á ótal skot í viðbót.
 
KR náði upp 20 stiga forskoti 58-38 þegar rúmar tvær mínútur voru til leiksloka og þá var orðið ljóst að Grindavík ætti ekki möguleika og lokatölur urðu svo 68-44 KR í vil.
 
Margrét Kara Sturludóttir gerði 21 stig fyrir KR í kvöld en þær Unnur Tara Jónsdóttir og Signý Hermannsdóttir komu henni næstar báðar með 11 stig og Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir bætti við 10 stigum. KR vann kannski frákastabaráttuna í kvöld en hörkutólið Helga Hallgrímsdóttir í liði Grindavíkur lét stóru leikmennina í liði KR oft líta ansi illa út enda hefur Helga stimplað sig rækilega inn síðustu tímabil sem einn mesti frákastari deildarinnar.
 
Michele DeVault var stigahæst í liði Grindvíkinga með 17 stig og 6 fráköst en Helga var besti maðurinn í liði gestanna í kvöld með 9 stig og 12 fráköst. Þá voru sterkir leikmenn á borð við Petrúnellu Skúladóttur og Skibu fjarri sínu besta en Skiba skoraði ekki stig í kvöld en Petrúnella setti niður fimm og tók 4 fráköst.
 
 
Dómarar leiksins: Kristinn Óskarsson og Eggert Þór Aðalsteinsson: Skiluðu góðu dagsverki.
 
Fréttir
- Auglýsing -