Tómas Holton er hættur þjálfun Fjölnis í Iceland Express deild karla. Að sögn Tómasar hefur honum sjálfum ekki litist á hvaða áhrif starfið hefur haft á hann. Starfinu hefur fylgt mikið stress en Tómas tilkynnti Steinari Davíðssyni formanni KKD Fjölnis þetta í dag.
,,Ég stjórnaði æfingu í kvöld en tilkynnti leikmönnum eftir hana að ég væri hættur,” sagði Tómas við Karfan.is. Tómas tók við liðinu í sumar af Bárði Eyþórssyni sem einnig sagði starfi sínu lausu og leit að nýjum þjálfara stendur nú yfir í Grafarvogi.
,,Mér hefur ekki litist á hvaða áhrif starfið hefur haft á mig. Hvort sem manni líkar betur eða verr fylgir svona starfi nokkuð mikið stress. Þetta stress hefur haft meiri áhrif á mig en ég hefði viljað. Mér fannst ég verða að taka ábyrgð á sjálfum mér og hætta, þó það sé erfitt að viðurkenna að maður ráði ekki við eitthvað,” sagði Tómas og ljóst að ákvörðunin var þjálfaranum ekkert léttmeti.
,,Þetta var ekki skyndiákvörðun, heldur eitthvað sem hefur byggst upp á nokkrum vikum. Steinar formaður sýndi mér mikinn skilning þegar ég talaði við hann og er ég honum mjög þakklátur fyrir það. Mér þykir mjög leitt að valda vonbrigðum, sérstaklega strákunum í liðinu. Ég fer þó ekki langt enda er fjölskyldan öll á kafi í körfuboltanum í Fjölni. Ég hlakka til að taka áfram þátt í starfinu hér, bara á nýjan hátt.”
Bjarni Magnússon er aðstoðarþjálfari Fjölnis um þessar mundir og kom til liðs við Tómas í sumar en Steinar Davíðsson formaður KKD Fjölnis sagði í samtali við Karfan.is að leit stæði nú yfir að nýjum þjálfara og vonaðist til að nýr maður væri kominn í brúnna fyrir heimaleik Fjölnis gegn Hamri á mánudag.