6:32
{mosimage}
Tindastóll og nýliðarnir í FSu mættust í Síkinu á Króknum í kvöld. Bæði lið státuðu af sigrum í fyrstu umferðinni. FSu kafsigldu Njarðvíkinga á heimavelli, en Stólarnir sóttu tvö stig af harðfylgi í Hólminn í leik sem fer ekki í sögubækurnar fyrir stórkostlegan sóknarleik. Það var því búist við spennandi leik í Króknum í kvöld.
Byrjunarlið heimamanna var mannað með útlendingunum þremur, þeim Flake, Luber og Flæng ásamt Ísak og Svavari. FSu byrjuðu með Árna, Sævar Tyler, Véstein og Björgvin inná.
Leikurinn byrjaði af krafti og náðu gestirnir fljótlega forystu með hröðum leik og góðri hittni. Um miðjan hálfleikinn var staðan 11-17 og heimamenn ekki búnir að finna svar við leik FSu. Þeir klóruðu sig þó smátt og smátt inn í leikinn og munurinn fór niður í fjögur stig. Staðan 20-24 eftir fyrsta leikhluta.
Munurinn hélst út fyrstu tvær mínúturnar í öðrum leikhluta, en þá tóku Stólarnir góðan sprett og breyttu stöðunni í 31-31. Þeir tóku svo annan kipp fyrir hlé og náðu fimm stiga forystu og leiddu 44-39 í pásunni. Ísak kominn með 13 stig fyrir Tindastól, en Tyler Dunaway setti niður 11 í hálfleiknum. FSu hittu vel í fyrsta fjórðungi en síðan dró úr henni í öðrum leikhluta, á meðan Stólarnir reyndu að notast meira við stóru mennina í teignum þá Flake og Flæng.
Í síðari hálfleik héldu Stólarnir uppteknum hætti og juku muninn smátt og smátt og komu honum mest í 16 stig í stöðunni 67-51. Þá fékk Helgi Rafn dæmda á sig villu og var ekki sáttur við það og endaði á að fá fyrst tæknivillu og síðan aðra og þar með lauk þátttöku hans í leiknum. FSu var kominn með bónus á þessum tíma og fengu 6 víti og boltann eftir þessa uppákomu. Þetta náði ekki að slá heimamenn útaf laginu og leiddu þeir enn með 13 stigum þegar einn leikhluti var eftir.
Gestirnir voru ekki alveg búnir að gefast upp og minnkuðu muninn fyrstu mínúturnar. Þegar 5 mínútur voru eftir var staðan 76-67. Tindastóll kláraði þá leikinn með því að skora næstu sex stig og átti FSu ekkert svar við því og endaði leikurinn með 14 stiga sigri heimamanna, 86-72. Stigahæstur Tindastóls var Darrell Flake með 22 stig, en næst kom Ben Luber með 18 og síðan Ísak og Svavar með 16 stig hvor. Allt byrjunarlið Tindastóls átti góðan leik í kvöld og H-inn þrjú Helgi, Hreinn og Halldór sem leystu þá af á köflum stóðu vel fyrir sínu. Hjá FSu voru Vésteinn og Tyler bestu menn og Sævar átti þokkalegast leik, en eftir góða byrjun þá náðu aðrir sér ekki á strik hjá þeim.
Eftir leiki kvöldsins eru KR og Tindastóll með fjögur stig eftir tvo leiki, en annarri umferðinni lýkur á morgun með þremur leikjum.
Stigaskor Tindastóls: Flake 22, Luber 18, Ísak 16, Svavar 16, Flæng 13 og Helgi Rafn 1.
Stigaskor FSu: Vésteinn 19, Tyler 17, Sævar 14, Árni 9, Cristopher 6, Björgvin 5 og Nicolas 2.
Jóhann Sigmarsson
Mynd: [email protected]