spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaTindastóll lagði Njarðvík í Síkinu

Tindastóll lagði Njarðvík í Síkinu

Tindastóll náði í góðan heimasigur í 1. deild kvenna í körfubolta þegar Njarðvík kom í heimsókn í Síkið í dag.

Njarðvíkurstúlkur byrjuðu leikinn ágætlega, leiddu 0-2 og 4-5 en þá Tók Tess til sinna ráða og skoraði 6 stig í röð. Njarðvík tók leikhlé en þristur frá Heru var það sem þær fengu framan í sig eftir það og munurinn varð 17-8 að loknum fyrsta leikhluta. Stólastúlkur náðu að loka vel í vörninni. Í öðrum leikhluta héldu leikmenn Tindastóls sjó og vel það því þær juku muninn með góðum körfum frá Valdísi, Telmu og Karen Lind og Malín og Tess lögðu í púkkið líka. Vörnin hélt sínu áfram og Tindastóll leiddi í hálfleik 32-19.

Seinni hálfleikurinn hófst á svipuðum nótum og munurinn hélst nánast óbreyttur út þriðja leikhluta en í lokin náði Ása að stela boltanum og setja góðan þrist og munurinn 10 stig fyrir lokaátökin 47-37. Fjórði leikhlutinn byrjaði skelfilega hjá Tindastól sem skoraði ekki stig fyrr en rúmar 5 mínútur voru liðnar. Á meðan höfðu Njarðvíkurstúlkur góða möguleika til að saxa á forskot Tindastóls en náðu aðeins að setja 7 stig áður en Stólar vöknuðu til lífsins og Tess setti 5 snögg stig á töfluna og Karen Lind bætti við þristi, staðan 55-47. Njarðvíkurstúlkur náðu ekki að koma til baka eftir þetta og Tindastólsstúlkur fögnuðu góðum sigri.

“Orka og frábær vörn skópu þennan sigur” sagði Árni Eggert, þjálfari Tindastóls eftir leikinn. Tess var að venju atkvæðamest í stigaskorun Stóla, skoraði 29 stig eða nánast helming stiga liðsins. Svo bætti hún við 16 fráköstum og sex stoðsendingum og ljóst að Njarðvíkingar réðu ekkert við hana. Liðið spilaði frábæra vörn sem heild og þá ekki síst Kristín Halla sem varði 5 skot í leiknum. Njarðvíkingar hafa sjálfsagt oft hitt mun betur en í dag, settu einungis 26% sinna skota niður. Dreifing stiganna var mun jafnari hjá þeim en 9 leikmenn komust á blað og Vilborg skilaði flestum, eða 12 stigum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -