Nýliðar Tindastóls eru komnir í jólafrí og það með risavöxnum sigri á Skallagrím. Lokatölur 104-68 í Síkinu í kvöld og ljóst að nýliðarnir verða í 2. sæti Domino´s deildarinnar yfir jólahátíðina með 9 sigra og 2 tapleiki.
Leikurinn byrjaði jafnt og Skallagrímur var yfir í byrjun 5-8 eftir tvo þrista frá Páli Axeli Vilbergssyni sem byrjaði gríðarsterkt. En Stólar jöfnuðu sig, skoruðu 8 næstu stig og staðan skyndilega orðin 13-8 fyrir heimamenn. Mikil barátta einkenndi leikinn en Stólarnir voru alltaf sterkari og leiddu 29-21 eftir fyrsta fjórðung.
Annar leikhluti var mjög sérstakur, einkum fyrir þær sakir að liðunum virtist á köflum fyrirmunað að skora. Ógnar barátta hélt áfram og mistökin voru mörg á báða bóga. Skallarnir unnu þennan leikhluta 15-17 og fóru inn í hálfleik með ágætis stöðu 44-38. Tindastóll hóf hinsvegar síðari hálfleik mjög sterkt eins og oft áður í vetur og fljótlega var munurinn orðinn 12 stig og eftir það má segja að Stólarnir hafi ekki litið um öxl eftir það. Myron Dempsey kom hungraður inn eftir að hafa frekar lítið spilað í fyrri hálfleik og drengurinn hreinlega raðaði körfum í andlitið á Sköllum. Dempsey endaði leikinn með 27 stig og þar af komu 20 í seinni hálfleik. Lewis skilaði 20 stigum, flestum í fyrri hálfleik og Pétur Rúnar spilaði vel og mikið og endaði með 14 stig og 11 stoðsendingar. Senuþjófurinn var þó Svavar Atli Birgisson sem skilaði 25 mínútum, skoraði 16 stig tók 12 fráköst og átti 8 stoðsendingar. Hann kann þetta allt ennþá sá gamli!
Leikurinn endaði með 36 stiga sigri Stólanna sem kláruðu dæmið í 3ja leikhluta sem þeir unnu 30-12. Pétur Rúnar var ánægður í leikslok og sagði það mikilvægt að koma svona vel til baka eftir slæmt tap í síðasta leik. “Þetta var erfitt í fyrri hálfleik en við keyrðum yfir þá í 3ja eins og við höfum gert við mörg lið í vetur og kláruðum dæmið”
Mynd: Svavar spilaði frábærlega í kvöld