spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaTindastóll Deildarmeistari 2025!

Tindastóll Deildarmeistari 2025!

Tindastóll tók á móti Val í lokaumferð Bónus deildar karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Með sigri gátu Stólar tryggt sér deildarmeistaratitilinn en þeir höfðu tapað fyrir Valsmönnum í fyrri leik liðanna að Hlíðarenda og Valsliðið búið að vera á miklu skriði í deild og unnið bikarmeistaratitil um síðustu helgi.

Leikurinn fór fjörlega af stað og það sást strax að það var mikil stemning í liði heimamanna enda troðfullt Síki til að hvetja þá áfram. Sadio byrjaði leikinn með tveimur þristum og kveikti rækilega í Síkinu. Kiddi Páls svaraði og leikurinn jafnaðist en Stólar héldu áfram að finna leiðir í gegnum og framhjá vörn gestanna og leiddu eftir fyrsta leikhlutann 28-24. Arnar Björnsson og Sadio frábærir fyrir Stóla. Í öðrum leikhluta héldu Stólar áfram að keyra á gestina og um hann miðjan voru þeir komnir með 10 stiga forystu 39-29. Gestirnir áttu sína spretti en þristur og víti að auki frá Arnari kom forystunni í 13 stig og Stólar enduðu hálfleikinn sterkt, leiddu 53-37 í hálfleik. Ótrúlegar tölur gegn sterkustu vörn deildarinnar síðustu umferðir.

Veislan hélt áfram hjá heimamönnum í þriðja leikhluta og þegar fjórar mínútur voru liðnar af honum kom Giannis muninum í 22 stig með þristi og þakið var að rifna af Síkinu. Finnur tók leikhlé og Valsmenn komu til baka, komu muninum niður í 13 stig en Arnar rétti kúrsinn aftur hjá Stólum með þrist. Staðan 73-59 fyrir lokaátökin. Góð spilamennska frá Drungilas og svo þristur frá Geks komu Stólum aftur í 20 stiga forystu 81-61 og sex og hálf eftir, nógur tími fyrir endurkomu hjá Val. Hún kom hinsvegar ekki og það var mest að þakka frábærum varnarleik Tindastóls. Giannis blokkaði Kidda páls þegar rúmar 2 mínútur voru eftir og Kiddi fékk svo óíþróttamannslega villu þegar hann reyndi að stoppa hraðaupphlaupið og þar með var þetta komið hjá Stólum sem sigldu öruggum sigri heim. Tindastóll er Bónus deildarmeistari 2025.

Tölfræði leiksins

Myndasafn ( Væntanlegt )

Hjá Stólum endaði Arnar Björnsson stigahæstur með 20 stig, Sadio var með 16 stig, öll í fyrri hálfleik og Giannis skilaði 10 stigum og 14 fráköstum. Allt liðið spilaði vel nema kannski Dimitrios en Tindastóll var -7 með hann inni á vellinum. Taiwo stigahæstur með 14 stig í Valsliði sem Stólar einfaldlega kæfðu með frábærum varnarleik.

Viðtöl :

Umfjöllun / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -