spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaTillaga um takmarkanir á erlendum leikmönnum fyrir ársþing KKÍ 25. mars

Tillaga um takmarkanir á erlendum leikmönnum fyrir ársþing KKÍ 25. mars

Þann 25.mars verður haldið ársþing KKÍ þar sem kosið verður um breytingu á reglu um erlenda leikmenn í efstu tveimur deildum karla og kvenna. Nú í dag voru gerð opinber þau mál sem kosið verður um á þinginu, en þau er hægt að nálgast hér.

Til þess að rifja aðeins upp. Árið 2017 sendir Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) frá sér rökstutt álit varðandi þágildandi 4+1 reglu sem var í íslenskum körfubolta, sem í raun var þannig að á vellinum þyrftu alltaf að vera fjórir íslenskir leikmenn. Taldi ESA að verið væri að brjóta reglur um frjálst flæði vinnuafls innan evrópska efnahagssvæðissins. KKÍ svaraði með því að fara að óskum þeirra og takmarka aðeins leikmenn sem koma utan Evrópu, en hefta ekki atvinnumöguleika annarra Evrópumanna í íslenskum deildum.

Það var svo fyrir síðasta tímabil sem sett var á regla í efstu deildum karla og kvenna varðandi að á vellinum mættu að hámarki vera þrír leikmenn sem væru ekki íslenskir og að lágmarki þyrftu tveir þeirra að vera frá landi innan EES, eða Bosman A.

Breytingin á þessu í tillögunni fyrir efstu deildir karla og kvenna er því ekki mikil frá því fyrirkomulagi sem á er þetta tímabilið. Fyrir utan að nú á hún einnig að gilda um fyrstu deildir karla og kvenna. Er það vinnunefnd stjórnar KKÍ um málefni erlendra leikmanna sem leggur breytinguna fram fyrir þingið.

Reglan sem kosið verður um er eftirfarandi:

• Á leikvelli hverju sinni má mest vera einn leikmaður í hvoru liði sem ekki er
ríkisborgari EES ríkis.

• Á leikvelli hverju sinni mega mest vera tveir Bosman A leikmenn með erlent
vegabréf í hvoru liði, eða mest þrír ef enginn leikmaður utan EES er á
leikvelli innan liðs.

Þá er í tillögunni gert ráð fyrir að þriggja ára reglan verði tekin út úr reglugerðinni, en ekki er tekið fram í henni hvort þeir leikmenn sem þegar hafa áunnið sér þau réttindi fái að halda þeim.

Fréttir
- Auglýsing -