Fyrr í dag sendi Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) frá sér rökstutt álit varðandi 4+1 regluna sem gildir í íslenskum körfubolta. Síðastliðið sumar gaf ESA íslenskum stjórnvöldum þriggja mánaða frest til þess að koma röksemdum sínum á framfæri, en því var ekki svarað. Mun þetta því vera annað stigið í samningsbrotamáli gegn íslenska ríkinu, en það næsta er EFTA dómstóllinn.
Telur ESA að verið sé að brjóta reglur um frjálst flæði vinnuafls innan evrópsa efnahagssvæðissins og hefur KKí svarað því með því að, frá og með næsta tímabili, fara að óskum þeirra. Munu reglur um erlenda leikmenn í íslenskum körfuknattleik því fara eftir því sem ESA telur þær þurfi að vera, svo frjálsu flæði vinnuafls sé ekki aftrað.
Körfuknattleikssambandið tekur fram að ekki sé haldið að nein lög hafi verið brotin með þeim reglum sem nú eru í gildi, en þar sem reglurnar eru óljósar og málsmeðferð mun taka nokkur ár, mikinn tíma og fjármagn hefur stjórnin ákveðið að fara þessa leið.
Bréf til aðildarfélaga KKÍ:
Efni: Kvörtun ESA til íslenska ríkisins vegna reglna um hlutgengni erlendra leikmanna í körfuknattleik í mótum á vegum KKÍ.
Viðtakendur: Formenn aðildarfélaga KKÍ og nefndir KKÍ
Eftir marga fundi, símtöl og ráðleggingar ýmissa aðila hefur stjórn KKÍ farið vel yfir hvaða möguleikar eru í stöðunni eftir að kvörtun barst íslenska ríkinu frá ESA um hlutgengni erlendra leikmanna í körfuknattleik í mótum á vegum KKÍ. ESA telur að reglur KKÍ brjóti í bága við reglur um frjálst flæði vinnuafls innan ESB/EFTA svæðisins. Það er ljóst að skoðanir um málið eru skiptar og reglurnar túlkaðar á ýmsa vegu. Til að fá endanlega niðurstöðu í málið væri best að það færi alla leið fyrir dómstóla sem myndu skera úr um þetta álitaefni.
Stjórn KKÍ hefur rætt málið ítarlega og tekið þá ákvörðun að fyrir körfuknattleikshreyfinguna og íslenska ríkið sé best að frá og með keppnistímabilinu 2018/2019 verði spilað samkvæmt þeim reglum sem ESA telur að þurfi að gera með frjálst flæði vinnuafls innan ESB/EFTA svæðins. Er þetta gert með það í huga að hvorki KKÍ, ÍSÍ né fulltrúar íslenska ríkisins þurfi að setja í málið töluverðan tíma, vinnu og fjármagn. Ný reglugerð um hlutgengni erlendra leikmanna í körfuknattleik í mótum á vegum KKÍ mun taka gildi frá og með 1.maí 2018.
Stjórn KKÍ ítrekar að KKÍ telur að ekki sé búið að að brjóta lög með þeirri reglu sem verið hefur í gildi á undanförnum árum, en þar sem reglurnar eru óljósar og málsmeðferð mun taka nokkur ár, mikinn tíma og fjármagn telur stjórn KKÍ að best sé að breyta regluverkinu eins og fram kemur hér að ofan. Ákvörðunin er tekin með heildarhagsmuni körfuknattleikshreyfingarinnar og íslenska ríksins að leiðarljósi.
Stjórn KKÍ þakkar þeim aðilum sem voru ráðgefandi um málið og þá sérstaklega laganefnd ÍSÍ en stuðningur og ráðleggingar þeirra vógu þungt í ákvörðum stjórnar KKÍ.
Stjórn KKÍ vonast til þess að með þessari ákvörðun takist sátt á milli aðila og að ESA muni nú láta málið niður falla og gefa KKÍ svigrúm í að breyta sínu regluverki sem taka mun gildi 1.maí 2018.
Með kveðju / Best regards,
Hannes S. Jónsson
Formaður KKÍ / President KKÍ