spot_img
HomeFréttirÞrír frábærir sigrar íslenskra yngri landsliða í dag

Þrír frábærir sigrar íslenskra yngri landsliða í dag

Yngri landslið Íslands léku þrjá leiki í dag, tvo á Norðurlandamótinu í Kisakallio og einn á Evrópumóti í Litháen. Allir unnust leikirnir, tveir af þeim nokkuð örugglega og sá þriðji í nokkuð spennandi leik.

Fyrsta leik dagsins vann undir 18 ára lið stúlkna á Evrópumótinu í Litháen gegn Kósovó, 50-82. Annan leikinn í röð vinnur Ísland með yfir 30 stigum, en í gær kjöldrógu þær lið Bosníu. Til þessa á mótinu hafa þær því unnið tvo leiki og tapað einum, en fyrsta leik mótsins töpuðu þær nokkuð örugglega gegn heimastúlkum í Litháen.

Eftir að hafa leikið þrjá daga í röð fær liðið frídag á morgun áður en þær halda áfram á mótinu komandi þriðjudag með leik gegn Aserbædsjan. Stigahæstar í íslenska liðinu voru Elísabet Ólafsdóttir með 16 stig, Kolbrún María Ármannsdóttir með 13 stig og Rebekka Rut Steingrímsdóttir með 12 stig.

Hérna er meira um leikinn

Lokaleikir undir 16 ára liða voru svo á dagskrá á Norðurlandamótinu í Kisakallio. Drengirnir riðu á vaðið gegn heimadrengjum í Finnlandi, en þar unnu þeir gífurlega sterkan 50-76 sigur og tryggðu sér þar með silfur á mótinu með fjórum sigrum og einu tapi. Eina tap þeirra kom gegn Svíþjóð. Svíþjóð tapaði einnig í dag, en vegna innbyrðisstöðu gegn Íslandi unnu þeir Norðurlandameistaratitilinn.

Bestir í liði Íslands í dag voru Benóní Andrason, sem að leik loknum var valinn besti leikmaður mótsins, með 8 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar, Benedikt Guðmundsson með 15 stig, 2 stolna bolta og Ísarr Arnarson með 10 stig og 6 fráköst.

Hérna er meira um leikinn

Þriðji sigur Íslands í dag kom hjá undir 16 ára stúlkum, sem lögðu Finnland í lokaleik sínum á Norðurlandamótinu í Kisakallio, 68-77. Liðið vann því þrjá leiki og tapaði tveimur á mótinu. Með sigrinum náði liðið að tryggja sér brons á mótinu, en deila má um hvort þær hafi ekki átt silfur skilið, þar sem þær voru jafnar Svíþjóð og Finnlandi að stigum í 2. til 4. sætinu og áttu innbyrðisviðureignina í þriggja liða jafntefli. Mikið var tautað yfir bronsinu, en allt kom fyrir ekki, Ísland skyldi hafna í þriðja sætinu sama hvað.

Best í liði Íslands í dag var Inga Ingadóttir með 15 stig, 18 fráköst og 3 varin skot, en hún var valin í úrvalslið mótsins að leik loknum. Þá skiluðu Helga Bjarnadóttir 14 stigum, 6 fráköstum, 6 stoðsendingum, 6 stolnum boltum og Arna Eyþórsdóttir 18 stigum, 4 fráköstum og 3 stolnum boltum.

Hérna er meira um leikinn

Fréttir
- Auglýsing -