Yngri landslið Íslands léku þrjá leiki í dag, tvo á Norðurlandamótinu í Kisakallio og einn á Evrópumóti í Litháen. Allir unnust leikirnir, tveir af þeim nokkuð örugglega og sá þriðji í nokkuð spennandi leik.
Fyrsta leik dagsins vann undir 18 ára lið stúlkna á Evrópumótinu í Litháen gegn Kósovó, 50-82. Annan leikinn í röð vinnur Ísland með yfir 30 stigum, en í gær kjöldrógu þær lið Bosníu. Til þessa á mótinu hafa þær því unnið tvo leiki og tapað einum, en fyrsta leik mótsins töpuðu þær nokkuð örugglega gegn heimastúlkum í Litháen.
Eftir að hafa leikið þrjá daga í röð fær liðið frídag á morgun áður en þær halda áfram á mótinu komandi þriðjudag með leik gegn Aserbædsjan. Stigahæstar í íslenska liðinu voru Elísabet Ólafsdóttir með 16 stig, Kolbrún María Ármannsdóttir með 13 stig og Rebekka Rut Steingrímsdóttir með 12 stig.
Lokaleikir undir 16 ára liða voru svo á dagskrá á Norðurlandamótinu í Kisakallio. Drengirnir riðu á vaðið gegn heimadrengjum í Finnlandi, en þar unnu þeir gífurlega sterkan 50-76 sigur og tryggðu sér þar með silfur á mótinu með fjórum sigrum og einu tapi. Eina tap þeirra kom gegn Svíþjóð. Svíþjóð tapaði einnig í dag, en vegna innbyrðisstöðu gegn Íslandi unnu þeir Norðurlandameistaratitilinn.
Bestir í liði Íslands í dag voru Benóní Andrason, sem að leik loknum var valinn besti leikmaður mótsins, með 8 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar, Benedikt Guðmundsson með 15 stig, 2 stolna bolta og Ísarr Arnarson með 10 stig og 6 fráköst.
Þriðji sigur Íslands í dag kom hjá undir 16 ára stúlkum, sem lögðu Finnland í lokaleik sínum á Norðurlandamótinu í Kisakallio, 68-77. Liðið vann því þrjá leiki og tapaði tveimur á mótinu. Með sigrinum náði liðið að tryggja sér brons á mótinu, en deila má um hvort þær hafi ekki átt silfur skilið, þar sem þær voru jafnar Svíþjóð og Finnlandi að stigum í 2. til 4. sætinu og áttu innbyrðisviðureignina í þriggja liða jafntefli. Mikið var tautað yfir bronsinu, en allt kom fyrir ekki, Ísland skyldi hafna í þriðja sætinu sama hvað.
Best í liði Íslands í dag var Inga Ingadóttir með 15 stig, 18 fráköst og 3 varin skot, en hún var valin í úrvalslið mótsins að leik loknum. Þá skiluðu Helga Bjarnadóttir 14 stigum, 6 fráköstum, 6 stoðsendingum, 6 stolnum boltum og Arna Eyþórsdóttir 18 stigum, 4 fráköstum og 3 stolnum boltum.