Undir 16 ára drengjalið Íslands lagði Finnland í lokaleik sínum á Norðurlandamótinu í Kisakallio, 50-76. Liðið vann því alla leiki sína nema einn og vann til silfurverðlauna á mótinu. Eina tap Íslands var gegn Svíþjóð, en það lið vann mótið á þeirri innbyrðisviðureign gegn Íslandi.
Fyrir leik
Fyrir leik var ljóst að Ísland myndi ekki ná að vinna mótið. Þar sem tap þeirra gegn Svíþjóð á fimmtudag var of stórt. Færi svo þeir myndu vinna voru þeir þó öruggir með silfur á mótinu, sem er alls ekki slæmt.

Gangur leiks
Íslenska liðið hefur leikinn af miklum krafti og skora þeir fyrstu 10 stig leiksins. Vörn þeirra frábær, eru að skapa tapaða bolta og ná þeir oftar en ekki að keyra í bakið á heimadrengjum. Finnar ná þó áttum og er munurinn aðeins sex stig að fjórðungnum loknum, 11-17. Leikurinn er svo áfram nokkuð jafn undir lok fyrri hálfleiksins. Finnska liðið nær betur að spila á hraða íslenska liðsins í öðrum fjórðungnum, en Ísland er þó skrefinu á undan þegar liðin halda til búningsherbergja, 24-32.
Stigahæstir fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum voru Kormákur Jack með 10 stig og Steinar Rafnarson með 6 stig.

Íslensku drengirnir láta kné fylgja kviði í upphafi seinni hálfleiksins. Ná virkilega orkumiklum þriðja fjórðung og fara með forskot sitt í 22 stig fyrir lokaleikhlutann, 33-55. Skemmtileg tölfræðistaðreynd fyrir liðið á þeim tímapunkti var að þeir höfðu ekki leyft eitt einasta sóknarfrákast á fyrstu 30 mínútum leiksins, sem er nokkuð lýsandi fyrir þá orku sem þeir voru að spila með í dag.
Eftirleikurinn virtist einfaldur fyrir íslenska liðið, sem að lokum hrósaði gífurlega öruggum sigri og silfurverðlaunum á móti þessa árs, 50-76
Atkvæðamestir
Bestir í liði Íslands í dag voru Benóní Andrason, sem að leik loknum var valinn besti leikmaður mótsins, með 8 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar, Benedikt Guðmundsson með 15 stig, 2 stolna bolta og Ísarr Arnarson með 10 stig og 6 fráköst.

Hvað svo?
Næst á dagskrá hjá liðinu er Evrópumót, en það fer fram í Skopje í Makedóníu 6. til 17. ágúst.