Sundsvall Dragons plöntuðu sér á topp sænsku úrvalsdeildarinnar í gærkvöldi einir liða eftir sigur á Boras Basket 88-81. Hlynur Bæringsson fór mikinn í liði Sundsvall og landaði myndarlegri þrennu fyrir Drekana.
Hlynur var með 11 stig í leiknum, tók 15 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Jakob Örn Sigurðarson gerði 14 stig og tók 7 fráköst í leiknum. Með sigrinum er Sundsvall eitt liða á toppnum með 38 stig en risaslagur er í næstu umferð þegar liðið mætir LF Basket.
Þá er kosning hafin í sænska Stjörnuleikinn og ef henni lyki núna samkvæmt sænska sambandinu þá væri Hlynur inni í Stjörnuleiknum sem er síðla febrúarmánaðar. Hægt er að kjósa í sænska Stjörnuleikinn hér.