spot_img
HomeBikarkeppniÞórsarar í úrslitaleik VÍS bikarkeppninnar

Þórsarar í úrslitaleik VÍS bikarkeppninnar

Þór lagði Val í kvöld í undanúrslitum VÍS bikarkeppni karla, 90-85. Valur er því úr leik í keppninni, en Þór mun mæta Stjörnunni í úrslitaleik komandi laugardag.

Fyrir leik

Valur hefur í tvígang unnið Þór í vetur, bæði í Icelandic Glacial æfingamótinu, sem og í fyrri umferð Subway deildarkeppninnar. Þór vann þó í síðasta leik liðanna í seinni umferð deildarinnar.

Gangur leiks

Leikurinn fer nokkuð fjörlega af stað. Valsmenn undir forystu fyrrum leikmanns Þórs Callum Lawson ná að vera skrefinu á undan á fyrstu mínútunum. Undir lok fyrri hálfleiksins jafnast leikar þó og þegar að sá fyrsti er á enda er allt jafnt, 22-22. Þórasarar klára hálfleikinn nokkuð sterkt, ná að vera 6 stigum á undan þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 46-40.

Stigahæstur fyrir Þór í fyrri hálfleiknum var Ragnar Örn Bragason með 11 á meðan að fyrir Val var Callum Lawson kominn með 14 stig.

Þórsarar hóta að stinga af í upphafi seinni hálfleiksins. Ná mest 11 stiga forystu í þriðja leikhlutanum, en með herkjum nær Valur að koma til baka. Fyrir þann fjórða munar aðeins 2 stigum á liðunum, 63-61. Leikurinn er svo í járnum í fjórða leikhlutanum. Þar sem liðin skiptast á snöggum áhlaupum og aldrei munar meira en körfu á þeim. Á lokamínútunum ná Þórsarar aðeins að sigla frammúr og eru 4 stigum yfir þegar mínúta er eftir. Valur fær góð tækifæri til þess að vinna það niður á lokasekúndum leiksins, en allt kemur fyrir ekki, eftir mikilvægan þrist frá Davíði Arnari Ágústssyni vinnur Þór leikinn 90-85 og tryggir sig áfram í úrslitaleikinn.

Atkvæðamestir

Daniel Mortensen var atkvæðamestur í liði Þórs í kvöld með 11 stig, 12 fráköst og 7 stoðsendingar. Þá bætti Glynn Watson við 24 stigum og 5 stoðsendingum.

Fyrir Val var það Callum Lawson sem dró vagninn með 23 stigum, 7 fráköstum og Pablo Bertone honum næstur með 18 stig og 4 stoðsendingar.

Hvað svo?

Úrslitaleikur keppninnar er komandi laugardag 19. mars. Þar munu sigurvegarar kvöldsins etja kappi, en fyrr í kvöld tryggði Stjarnan sæti sitt í úrslitaleiknum með sigri gegn Keflavík í framlengdum leik, 95-93.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -