spot_img
HomeFréttirRauði veggurinn rétt nægilega þéttur!

Rauði veggurinn rétt nægilega þéttur!

Það var komið að þriðja leik í undanúrslitaeinvígi Vals og Njarðvíkur í kvöld að Hlíðarenda. Staðan 1-1 og spennandi að sjá hvernig liðin koma til leiks. Njarðvíkingar unnu afar glæsilegan og sannfærandi sigur í fyrsta leik einvígisins sem hefði fengið undirritaðan til að hætta sem þjálfari Vals ef þannig hefði verið staðan. Sem betur fer er Finnur Freyr við stjórnvölinn og hann og hans menn tóku Rauða vegginn með til Njarðvíkur í leik 2 og jöfnuðu seríuna. Hvernig fer í kvöld, Kúla góð?

Kúlan: Þegar litið var í Kúluna fyrir leik var boðið upp á smá ferðalag um ranghala Hlíðarenda. Að lokum var gengið inn í myrka áhaldakompu og á dýnu mátti sjá rauðleitt skrímsl sem lá þar hrjótandi. Finnur Freyr birtist þá skyndilega og sparkar í skrímslið sem hrekkur upp og lætur ólundarlega. Þetta þýðir að Rauði veggurinn, Valsvörnin, verður á fótum í kvöld. 85-73 sigur Vals verður því niðurstaðan.

Byrjunarlið

Valur: Tamulis, Kiddi, Aron, Badmus, Kristó

Njarðvík: Chaz, Þorri, Dwayne, Mario, Milka

Gangur leiksins

Það voru strax merki um að það yrði stál í stál í þessum leik enda lítið skorað. Tamulis setti fyrstu stig heimamanna eftir um 4 mínútna leik og staðan 2-4! Njarðvíkingar leiddu með örfáum stigum allan leikhlutann og voru 5 stigum yfir, 17-22 að honum loknum. Varnir beggja liða voru vissulega harðar en ljótir tapaðir boltar einkenndu fyrsta leikhlutann, sumir hverjir afar klaufalegir.

Gestirnir byrjuðu betur í öðrum leikhluta, komust í 17-26 og virtust vera með ágæt tök á leiknum. Valsarar svöruðu hins vegar vel, tóku á 7-0 sprett og skömmu síðar eða um miðjan leikhlutann tók Benni leikhlé í stöðunni 28-30. Það kom ekki í veg fyrir að Monteiro kom heimamönnum yfir, 33-32, nokkrum mínútum síðar. Í hálfleik leiddu heimamenn 40-38.

Það rigndi ekkert stigunum í byrjun seinni hálfleiks. Valsmenn slysuðu þó niður 5 stigum fyrstu 2 mínúturnar og dugði það til að Benni tók leikhlé í stöðunni 45-38. Valsmenn héldu áfram naumri forystu en hún fór þó næstum því í 10 stigin eftir þrist frá Monteiro seint í leikhlutanum, staðan 60-51. Fyrir lokaátökin stóðu leikar 60-53, allt galopið enn.

Undirritaður fullyrðir að hann hafi séð skemmtilega leiki þar sem bæði lið spila fantagóða vörn. En satt best að segja var þessi bara ekki einn af þeim. Eftir 3 og hálfa leikmínútu höfðu heimamenn klúðrar einu stigi upp á töflu og gestirnir þremur, 61-56! Valsmenn gátu bara ekki keypt sér körfu og nú reyndi heldur betur á Rauða vegginn. Hann stóð vel fyrir sínu en Þorri kom samt sínum mönnum 63-64 yfir þegar 1:50 voru eftir af leiknum. Þegar rétt rúm mínúta lifði leiks náði Chaz að troða boltanum inn á Milka sem kom gestunum 64-66 yfir. Mario braut klaufalega á Kidda nokkrum sekúndum síðar sem jafnaði leika á línunni. Þorri kom Njarðvík aftur yfir með einu víti þegar 25 sekúndur voru eftir en heilum tveimur sekúndum síðar sendi Mario Kidda aftur á línuna, hann setti bæði og Valsmenn komnir 68-67 yfir! Ævintýralega klaufalegt af ofurhetjunni. Dwayne kom sér í ágætis stökkskot í blálok leiks en niður vildi það ekki. Kannski ekki mjög glæsilegur sigur – en mikilvægur iðnaðarsigur Vals!

Menn leiksins

Það þarf 5 leikmenn til að spila vörn og ekki þarf mikinn snilling til að dæma þetta sem varnarsigur hjá Val. En einhver stig þarf að skora, Badmus setti þau flest eða 17 fyrir sína menn og tók 5 fráköst. Kristó bætti við 10 stigum og tók heil 17 fráköst.

Dwayne setti 14 stig fyrir gestina og tók 4 fráköst. Milka var á svipuðu róli og Kristó, setti 13 stig og hirti 19 fráköst.

Kjarninn

Það er kannski ótrúlegt vanþakklæti og heimtufrekja í undirrituðum að leyfa sér að segja að þessi leikur var bara ekkert spes! Það er vissulega fegurð fólgin í góðum varnarleik og það vantaði ekkert upp á það í kvöld en á sama tíma má alveg gagnrýna sóknarleik beggja liða. Fyrr má nú aldeilis vera, skotnýting beggja liða hörmuleg og kaflarnir þar sem einhver taktur og flæði var í gangi sóknarlega voru fáir og stuttir.

Það breytir því ekki að Valsarar leiða nú einvígið 2-1. Vonandi fáum við örlítið skemmtilegri leik í Njarðvík í leik 4 – og helst trylltan oddaleik að Hlíðarenda þar á eftir!

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -