Þórsarar höfðu það af gegn baráttuglöðum Stjörnupiltum

Garðbæingar og Þorlákshafnarbúar þurftu allir að sætta sig við tap í fyrstu umferð Subway-deildarinnar. Stigin tvö sem voru í boði í Umhyggjuhöllinni í kvöld voru því extra eftirsóknarverð. Stjörnumenn áttu ágætan leik í fyrstu umferð í Njarðvík þrátt fyrir ósigur – Ægir var stórkostlegur og margir fleiri leikmenn liðsins skiluðu sínu. Benda má einnig á að nokkrir leikmenn Stjörnunnar eru frá vegna meiðsla.

Þórsarar fengu bráðláta til að hugsa með sér að e.t.v. yrði liðið spútniklið tímabilsins eftir stórgóðan fyrsta leikhluta gegn Val í fyrstu umferðinni. En Þór rann illilega á rassinn strax í öðrum leikhluta gegn sleipum Valsmönnum. Ýmist í ökkla eða eyra hjá Þórsurum…en hvað segir Kúlan fyrir leik?

Kúlan: ,,Þórsarar munu kannski geta eitthvað í nokkrar mínútur…ekkert þess á milli! Stjörnumenn hirða því stigin í kvöld! 91-81.“

Byrjunarlið

Stjarnan: Ægir, Júlíus, Addú, Kanervo, Hlynur

Þór Þ.: Davis, Dabbi, Tómas, Fotis, Pruitt

Gangur leiksins

Liðin buðu ekki upp á neinar flugeldasýningar til að byrja með, stigaskor lágt bæði vegna ágætis varnarleiks beggja liða og stirðbusalegs sóknarleiks. Um miðjan fyrsta leikhlutann stóðu leikar 8-7. Menn hresstust svolítið í seinni hluta fjórðungsins, Tómas Valur og Semple sáu að mestu um stigaskor gestanna en Kanervo og Júlíus fyrir heimamenn. Davis sá svo til þess með flautuþristi að gestirnir leiddu með nokkrum stigum, 17-22, að fyrsta fjórðungi loknum.

Fyrirliði gestanna kom inn af bekknum fyrir sína menn með mikla orku og 6 stig í röð með tveimur þristum. Þórsarar komu sér í 19-27 en Stjörnumenn svöruðu að bragði, Pálmi Geir minnkaði muninn í 1 stig, 29-30, er hann setti eiginlega óvart spjaldþrist ofan í um miðjan annan leikhluta. Stjörnumaðurinn ungi og efnilegi, Ásmundur Múli, kom einnig óhræddur inn af bekknum og kom sínum mönnum 4 yfir, 39-35 þegar tæpar 2 mínútur voru til hálfleiks. Eins og Arnar nefnir í viðtali eftir leik fóru heimamenn hins vegar illa að ráði sínu fram að hléi, gestirnir áttu síðustu 6 stig hálfleiksins og leiddu 39-41 í pásunni.

Það var allt í járnum í þriðja leikhluta. Múli hélt áfram að setja dýrmæt stig i pokann fyrir Stjörnumenn og þeir leiddu 54-49 þegar tæpar 5 voru eftir af leikhlutanum. Í þeirri stöðu fékk Tómas Þórður kjörið tækifæri til að koma heimamönnum 7 yfir en Tommi var ekki alveg á deginum sínum og klúðraði sniðskotinu. Í kjölfarið tóku gestirnir á smá sprett, jöfnuðu í 54-54 og leiddu með einu stigi, 59-60, fyrir lokafjórðunginn.

Lítið hafði skilið að liðin allan leikinn og það virtist ætla að haldast þannig miðað við fyrstu mínútur lokafjórðungsins. Hinn síungi Fotis kom hins vegar smá skriðu af stað með nettum þristi og Tómas Valur bætti öðrum við í næstu sókn. Júlíus Orri meiddist á þessum tímapunkti í leiknum og allt í uppnámi hjá heimamönnum. Pruitt kom Þórsurum í 8 stiga forskot af línunni þegar góðar 5 mínútur voru til leiksloka, 62-70, og skömmu síðar leiddu þeir 64-74, 4 mínútur eftir og Arnar tók leikhlé. Meistari Hlynur Bærings hleypti lífi í leikinn með þristi þegar 3 mínútur voru eftir og minnkaði muninn í 70-74. Tómas Valur tók þá upp rýtinginn og svaraði strax í sömu mynt, Stjörnumenn misstu boltann klaufalega í næstu sókn og staðan 70-79. Þarna var aðeins rúm mínúta eftir af leiknum og dauðakippir Stjörnumanna breyttu litlu. Gestirnir kláruðu leikinn örugglega á línunni, lokatölur 80-84.

Menn leiksins

Tómas Valur Þrastarson var bestur á vellinum í kvöld, setti 22 stig og tók 9 fráköst. Nigel Pruitt kom næstur með 21 stig og 4 fráköst en þessi leikmaður virðist vera hörku skytta og á vafalaust eftir að setja þá allmarga í vetur.

Kanervo var stigahæstur Stjörnumanna með 23 stig. Ægir hitti hins vegar ekki neitt í kvöld, lauk þó leik með átta stig og gaf 13 stoðsendingar. 9 þeirra komu í fyrri hálfleik. Múli á skilið að fá nafnið sitt skráð í þennan lið, setti 11 stig á 17 mínútum og í fáum skotum. 

Kjarninn

Það væri næstum hægt að klippa það sem stendur um Stjörnuliðið í inngangi pistilsins og líma hér inn. Liðið stóð sig mjög vel, góð barátta og góður andi en það er kannski eins gott þegar margir leikmenn eru frá vegna meiðsla. Engin stig hefur liðið þó fengið enn sem komið er en þau munu koma með batnandi heilsu!

Þórsarar voru ekki í ökkla eða eyra eins og Kúlan hafði séð fyrir sér. Undirritaður upplifði ekki mikla leikgleði hjá Þórsurum í þessum leik og Lalli benti á í viðtali eftir leik að menn væru e.t.v. svolítið brenndir af því að byrja illa líkt og á síðasta tímabili. Því eru þessi stig kærkomin fyrir liðið þó ekki hafi sigurinn verið öruggur eða liðið sýnt einhvern glimrandi leik í kvöld. En þetta er bara rétt að byrja, Þórsarar munu spila sig betur saman og Lalli bindur miklar vonir við hæfileikabúntið Tómas Val í vetur.

Tölfræði : Stjarnan 77 – 83 Þór