Í kvöld fór fram leikur Þórs Þorlákshafnar og Hattar í Icelandic Glacial höllinni í 10. umferð Domino´s deildar karla í körfubolta.
Liðin áttust við seinustu helgi í bikarnum þar sem Þórsarar unnu 7 stiga sigur en Hattarmenn virtust ólmir í að hefna fyrir það því að þeir byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust í 12-3 en Þórsarar rönkuðu fljótlega við sér og stóðu leikar jafnir eftir fyrsta fjórðung. Þórsarar voru sterkari aðilinn í öðrum leikhluta og leiddu í hálfleik 42-33.
Síðari hálfleikur var eign Þórsara en strax í upphafi hans byrjuðu þeir að spila feikna góða vörn og Hattarmenn áttu fá svör við honum en þeir skoruðu ekki sína fyrstu körfu í hálfleiknum fyrr en 5:30 mínútur voru liðnar af honum. Þórsarar sigldu þessu svo örugglega í höfn í fjórða leikhluta og færðu Hetti sitt tíunda tap í deildinni, lokatölur 85-61 fyrir Þór.
Hattarmenn voru oft á köflum að berjast vel í leiknum en voru lítið að skapa í sóknarleik sínum. Þórsarar voru að spila mjög góða vörn á köflum í leiknum og að hreyfa boltann vel sín á milli í sókninni. Vance Hall átti mjög góðan leik fyrir Þór með 27 stig og 7 stoðsendingar.
Þorsteinn Már Ragnarsson leikmaður Þórs sagði sína menn hafa byrjað illa í leiknum og það sé eitthvað sem að þeir þurfi að laga, en með góðri vörn og baráttu hafi þeir náð að knýja fram sigur.
Með sigrinum eru Þórsarar núna í 4-6. sæti með 12 stig en Hattarmenn eru enn stigalausir á botninum.
Umfjöllun/ Vilhjálmur Björnsson
Mynd úr safni/ Vance Michael Hall var með 27 stig, 5 fráköst og 7 stoðsendingar í liði Þórs.