Þétt landsliðssumar er í vændum og lýkur því þann 27. ágúst þegar karlalandsliðið tekur á móti Bosníumönnum í Laugardalshöll. Allt saman hefst þetta þann 9. júlí næstkomandi þegar kvennalandsliðið mætir Dönum í æfingaleikjum í Reykjavík 9. júlí og í Stykkishólmi 10. júlí. U18 ára landsliðin eru á leið í Evrópukeppni, U18 kvenna verður í Evrópukeppni í B-deild dagana 17.-27. júlí í Rúmeníu og U18 ára landslið karla tekur einnig þátt í B-deildinni í Búlgaríu dagana 24. júlí til 3. ágúst.
Hvernig metum við svo stöðuna? Ef við hefjum leik á U18 ára liði kvenna sem hafnaði í 4. sæti á Norðurlandamótinu þá er ein þekkt stærð með Íslandi í riðli og það er Danmörk. Danir unnu einn af fimm leikjum sínum á Norðurlandamótinu en Ísland vann tvo af fimm leikjum sínum og m.a. 14 stiga sigur á Dönum. Stelpurnar ætla sér vafalítið að endurtaka þann leik en renna blint í sjóinn gagnvart Sviss, Ísrael og Englandi.
U18 ára landslið karla leikur í Búlgaríu í riðli með Eistlandi, Austurríki, Ísrael, Þýskalandi og Georgíu. Okkar menn hefðu eflaust getað verið heppnari með riðil en sem fyrr má gera ráð fyrir að amk. Ísraelar og Þjóðverjar verði með sterk lið. Eina þekkta stærðin fyrir Ísland í riðlinum er Eistland en íslenska liðið lagði það eistneska á Norðurlandmaótinu í Solna 89-61.
Íslendingar ættu að leyfa sér að gera kröfur á A-landslið kvenna, að því sögðu A-landslið karla um leið en lítum fyrst á kvennalandsliðið. Vissulega þungt fyrir A-landsliðið að eiga ekki kost á því að tefla fram leikmönnum eins og Söndru Lind og Söru Rún sem verða uppteknar með U18 ára kvennalandsliðinu á sama tíma. Kvennalandsliðið mætti Möltu á Smáþjóðaleikunum 2013 og hafði þar 77-59 sigur en Gíbraltar var ekki með á Smáþjóðaleikunum svo minna er vitað um það lið. Kvennalandsliðið er að taka þátt í Evrópukeppni smáþjóða og að lokinni keppni í sínum riðli skýrist framhaldið. Ísland leikur í A-riðli en í B-riðli eru Skotland, Azerbaijan, Austurríki og Wales.
Karlalandsliðið er í ansi athyglisverðri stöðu, Ísland lenti í þriggja liða riðli með Englandi og Bosníu og er að margra mati í einhverri bestu stöðu íslensks landsliðs til þess að tryggja sér sæti inn á lokamót. Andstæðingarnir eru vissulega engin lömb að leika sér við en færri leikir gera okkur líkindareikninginn þægilegri. Þá er vitað að Bosníumenn eru afar sterkir en enska liðið meira óskrifað blað, samkvæmt sögusögnum er ekki líklegt að bombur á við Luol Deng verði með en Englendingar hafa séð skrúfað fyrir djúpa vasa hins opinbera eftir að Ólympíuleikunum í London lauk, fyrir það verkefni voru enska liðinu ýmsir vegir færir eins og t.d. að fá Deng til að klæðast landsliðstreyjunni.
Tvö efstu liðin í riðlinum komast áfram og fyrirfram verður að áætla að líkurnar séu meiri fyrir Ísland gegn Englandi heldur en Bosníu. Takist Íslandi að vera í einu af tveimur efstu sætunum í riðlinum kemst Ísland á lokamót Evrópukeppninnar 2015! Þá væri það jafnframt í fyrsta sinn sem Ísland myndi taka þátt í lokakeppni á stórmóti. Þó skal tekið fram að öll liðin í 2. sæti komast í lokakeppni EM 2015 nema eitt og verður það liðið í 2. sæti sem er með lakasta árangurinn í riðlakeppninni. Nú er engu að síður lag! Nú er rétti tíminn til þess að troðfylla Laugardalshöllina 10. og 27. ágúst og styðja strákana til sigurs.
Tímaröð landsleikja sumarsins:
9. júlí
A-landslið kvk: Ísland-Danmörk, Ásvellir 19:15 (æfingaleikur)
10. júlí
A-landslið kvk: Ísland-Danmörk, Stykkishólmur 19:15 (æfingaleikur)
14. júlí
A-landslið kvk: Ísland-Malta (leikið kl. 14:00 í Austurríki)
15. júlí
A-landslið kvk: Ísland-Gíbraltar (leikið kl. 14:00 í Austurríki)
(eftir leiki A-landsliðs kvenna í riðlakeppni skýrist framhaldið en þá eru leikir 18. og 19. júlí)
17. júlí
U18 kvenna: Ísland-Ísrael (EM B-deild, Rúmenía)
19. júlí
U18 kvenna: Ísland-England (EM B-deild, Rúmenía)
20. júlí
U18 kvenna: Ísland-Sviss (EM B-deild, Rúmenía)
21. júlí
U18 kvenna: Ísland-Danmörk (EM B-deild, Rúmenía)
(að lokinni riðlakeppni á EM U18 í B-deild kvenna hefjast milliriðlar og leikið til þrautar fram til 27. júlí – restin af leikjaplani U18 liðs kvenna skýrist eftir riðlakeppnina)
24. júlí
U18 karla: Ísland-Eistland
25. júlí
U18 karla: Ísland-Þýskaland
26. júlí
U18 karla: Ísland-Austurríki
27. júlí
U18 karla: Ísland-Georgía
28. júlí
U18 karla: Ísland-Ísrael
30. júlí
U18 karla: Ísland leikur í milliriðli
31. júlí
A-landslið kk: Lúxemborg-Ísland – æfingaleikur í Lúx
U18 karla: Ísland leikur í milliriðli
2. ágúst
A-landslið kk: Lúxemborg-Ísland – æfingaleikur í Lúx
U18 karla: leikið um sæti (2. eða 3. ágúst)
3. ágúst
U18 karla: leikið um sæti (2. eða 3. ágúst)
10. ágúst
A-landslið kk: Ísland-Bretland (EuroBasket)
17. ágúst
A-landslið kk: Bosnía-Ísland (EuroBasket)
20. ágúst
A-landslið kk: Bretland-Ísland (EuroBasket)
27. ágúst
A-landslið kk: Ísland-Bosnía (EuroBasket)
Mynd/ Jón Björn: Sem fyrr mun mikið mæða á Jóni Arnóri Stefánssyni í verkefnum landsliðsins þetta sumarið.