Birgir Björn Pétursson er kominn heim til Íslands eftir að hafa gert það víðreist frá síðastliðnu sumri. Birgir reyndi fyrir sér á Spáni sem færði honum samning í Þýskalandi en nú er sá samningur á enda og miðherjinn metur stöðuna um þessar mundir. Hugurinn vill út en Birgir segir að ef ekki verði af þeirri vegferð á nýjan leik þá standi til að koma sér að í Domino´s-deildinni. Karfan.is forvitnaðist um ævintýri Birgis síðastliðið hálfa árið en hann kom heim um jólin frá Muenster í Þýskalandi.
Í sumar dvaldi Birgir í sex vikur við æfingar í körfuboltaakademíu í Barcelona og þá fór hann í ferð til Þýsklands yfir helgi þar sem hann var að virða fyrir sér stöðu mála á meginlandinu. Mögulegur samningur var á borðinu í fjórðu efstu deild í Þýskalandi en það skolaðist til. Birgir kom í stutt stopp aftur heim til Íslands en var svo kallaður aftur út til Þýskalands þar sem hann lék með UBC Muenster.
„Ég fór út til að bæta mig sem leikmann og auka líkurnar á að komast á samning hjá áhugaverðu liði í útlöndum. Mér fannst þetta einnig áhugaverð leið til að nýta sumarfríið mitt. Ég fór út til Barcelona 12. júní. Þar var mikið æft og lítið pláss fyrir annað en að borða og hvíla sig fyrir næstu æfingu virka daga en um helgar gafst yfirleitt tími til að skoða borgina“ sagði Birgir sem æfði við körfuboltaakademíu í Barcelona.
„Gæðin á æfingunum voru oft mjög góð og þjálfunin í háum klassa fyrstu tvær vikurnar þegar flottir þjálfarar skiptust á að þjálfa í búðunum. Mér bauðst síðan tækifæri á að fara til Þýsklands yfir eina helgi sem ég þáði. Eftir Þýskalandsferðina tók spænskur þjálfari úr hverfinu við þjálfuninni og við vorum færðir tímabundið á annað hótel í Terassa sem er úthverfi í Barcelona. Eigandi búðanna, sem er Serbi, sá um æfingarnar í eina viku en þær voru erfiðar en góðar. Ég lærði töluvert og svo var þetta mikil lífsreynsla og upplifun. Það fyrsta sem maður tók eftir var að maður þurfti að bæta sig líkamlega.“ sagði Birgir sem sjálfur er nú enginn aukvisi. Hann fékk líka betri sýn á hvers er ætlast af leikmönnum sem spila í bestu deildum Evrópu þar sem m.a. tveir af þjálfurunum í akademíunni höfðu verið aðalþjálfarar í fyrstu deildinni á Ítalíu, Tyrklandi og Grikklandi.
Birgir er ekki sá fyrsti hér á Íslandi sem fer utan og reynir fyrir sér á sínum eigin vegum en flest þekkjum við sögu Arnþórs Freys Guðmundssonar sem hefur leikið í EBA deildinni við góðan orðstír.
Birgir sem hefur hlaðið vel inn í tengslanetið sitt ytra og gerði það sem allt of fáir fá að gera: „sjá Jón Arnór og félaga í Malaga spila á móti Barcelona í undanúrslitum ACB-deildarinnar. Eins hittum við borgarstjórann í Barcelona en akademían tók að sér samfélagsverkefni í kringum 3 á 3 götukörfuboltamót sem var eitt af fyrstu verkum þessa nýja borgarstjóra.“
Akademíur eins og þessa sem Birgir hefur davlið við eru að spretta víða upp í Evrópu: „Til þess að fá samning held ég að góð sambönd skipti mestu máli. Svo skemmir ekki fyrir að vera góður í körfubolta. Góð highligt myndbönd og ferilskrár skipta líka máli,“ sagði Birgir. Þegar menn svo grýta út flotholtinu með maísbaunir eða feitan orm við endann þá er nú oftar en ekki eitthvað nart og þannig var það í tilfelli Birgis sem var boðið til Þýskalands.
„Þetta var pro-samningur sem var á borðinu í Þýskalandi,“ sagði Birgir sem kom þó samningslaus þaðan. Hvernig vildi það til?
„Sá sem er með akademíuna biður mig um að tala við sig um eitt kvöldið þegar ég var að klára að borða á vetingastaðnum sem við borðuðum á hverjum degi og sagði að það væri lið í Þýskalandi sem hefði áhuga á að fá mig til að spila fyrir sig. Ég fór nánast ósofinn til Þýskalands eftir að hafa spilað leik á móti spænsku liði sem var búinn klukkan rúmlega 22 og farið mitt á flugvöllinn þurfti að leggja af stað klukkan 3 um nóttina. Drög að samningi og helstu tölur lágu fyrir áður en ég fór í ferðina en liðið heitir Ibbenburen og spilar í fjórðu deild.
Ég mætti á liðsæfingu klukkan 19 á föstudeginum en þar voru líka fleiri leikmenn sem liðið var að fylgjast með. Ég stóð mig vel á æfingunni og Þjóðverjarnir virtust vera mjög ákveðnir í að klára samninginn eins og skot. Sá sem er yfir akademíunni og var titlaður umboðsmaðurinn minn var alveg harður á því að ég ætti ekki að skrifa undir neinn samning við Þjóðverjana fyrr en ég kæmi aftur til Barcelona. Þeim ráðum fór ég eftir sem voru líklega mistök en tveimur dögum eftir að ég kom til Barcelona og ætlaði að ræða um samning við Þjóðverjana var svarið að þeir ætluðu ekki að semja því þeir væru að leita að öðruvísi leikmanni. Veit ekki hvort ég hafi móðgað þá með því að semja ekki strax eða hvort þeir hafi ekki nennt að standa í þessu þar sem þeir voru búnir að sjá myndbönd af mér spila auk annarra upplýsinga eða hvort þeir voru að reyna að spila með mig. Fólkið þarna virtist mjög almennilegt og minnti á landsbyggðarsamfélag á Íslandi. Þjóðverjarnir eyddu hundruðum evra í flug, hótel, mat og ferðir fyrir mig í þessari heimsókn og voru mjög gestrisnir sem gerir þetta að mér finnst undarlegra. Þetta var allavega þeirra ákvörðun og ég virði hana og er þakklátur fyrir tækifærið,“ sagði Birgir sem hélt þarna aftur í akademíuna á Spáni.
„Við í akademíunni spiluðum svo leik við lið frá Ungverjalandi í Girona. Viku seinna spiluðum við gegn breska liðinu Aldershot Warriors á sama velli í Girona. Þá fórum við á skotæfingu klukkan 8 um morguninn og eftir hádegismat var haldið á ströndina í Girona, sem er öðruvísi leikundirbúningur en maður er vanur en okkur leiddist það ekki. Leikirnir í ferðinni unnust frekar auðveldlega en það kom skemmtilega á óvart að sjá svona marga Íslendinga í Girona ferðunum. Yngri flokka lið frá Haukum var að spila á vellinum við hliðina á okkur, með Ívar og Henning á hliðarlínunni í fyrri ferðinni. Yngri flokka hetja Stjörnunnar, Chrisopher Cannon, var að flexa vöðvana á ströndinni í seinni ferðinni og Hamar var með tvö yngri flokka lið auk fríðs föruneytis,“ sagði Birgir Björn sem að þessu loknu kom heim til Íslands.
Í september hljóp á Snærið hjá Birgi og þá var það lið úr 1. Regionalliga sem er fjórða efsta deildin í Þýskalandi. Reyndar sama deild og Ibbenburen lék í en þetta lið hét Muenster og Birgir hélt út. Þar gerði hann þriggja mánaða samning við Þjóðverjana og að honum loknum stóð Muenster 12-3 og var í efsta sæti West riðils deildarinnar og þar voru t.d. tveir sigurleikir gegn Ibbenburen og það leiddist okkar manni frá Ísafirði nákvæmlega ekki neitt.
„Ég ætlaði mér alltaf aftur út þegar ég kom heim frá Spáni, ég ræddi við lið í Frakklandi en það var svo Borce Ilievski sem lét mig vita af liði í Þýskalandi sem væri að leita sér að leikmanni. Þá var Konrad Tota sem lék á Íslandi um tíma mér einnig innan handar í þessu máli,“ sagði Birgir en honum fannst það athyglisverð staða að vera kominn í smábæ í Þýskalandi sem er stærri en Ísland að íbúafjölda.
„Það eru fáir sem vita hvað þessi bær heitir en hann er samt fjölmennari en allt Ísland, það er furðulegt að vera í svoleiðis smábæ,“ sagði Birgir léttur á manninn en hann áttaði sig fljótt á því að Muenster ætlaði sér mikla hluti á þessu tímabili.
„Það er bara eitt lið af 14 sem kemst upp í ProB deildina og það var markmiðið strax í byrjun hjá Muenster. Þeir voru með sterka leikmenn í teignum og besta kanann í deildinni sem skilaði miðherjastöðunni. Mitt hlutverk var að koma inn af bekknum og vera þeim innan handar og það kom fyrir að maður kom með tvennur inn af bekknum. Deildin var samt sterkari en ég bjóst við, sú sterkasta af öllum þessum Regional-deildum. Flest liðin sem fara upp úr Regional-deildunum og í ProB fara oftar en ekki beint niður aftur um deild,“ sagði Birgir en flest lið þar eru með að minnsta kosti einn Bandaríkjamann og fjölda Bosman-leikmanna.
„Mitt mat er að þessi deild sem ég lék í með Muenster sé aðeins sterkari en Domino´s-deildin okkar en í þessum riðli okkar, West, eru öll liðin sterk, þú ert alltaf í leik og það þarf að hafa mikið fyrir hverjum einasta sigri þarna,“ sagði Birgir sem sagðist vissulega hafa tekið framförum á vellinum en einnig hafi komið til töluverður persónulegur lærdómur af öllu þessu ævintýri hans frá síðasta sumri.
„Mér fannst ég læra helling þarna og það er búið að skóla mig nokkuð til varnarlega sem og vinna í mörgum smáatriðum í mínum leik. Ég held samt að ég hafi lært mest persónulega, kynnast nýjum menningarheim og upplifa agann sem var í hávegum hafður þarna og aðlagast tungumálinu,“ en Birgir skellti sér í stutt þýskunám til að halda í við heimamenn.
„Stundum er þetta körfuboltalíf svolítið skrýtið líferni, maður þarf oftar en ekki meira „brainpower“ en ella og tungumálanámið hjálpaði mikið. Þjóðverjar eru fínir í enskunni, sérstaklega yngra flókið… að minnsta kosti mun betri heldur en almenningur í Barcelona,“ sagði Birgir hlægjandi og lét vel í það vaka að sitthvað hefði nú gengið á í samskiptum á Spáni.
Þó liðið hafi farið inn í jólafríið á toppnum í 1. Regional-liga þá endurnýjaði Muenster ekki samninginn við Birgi. „Þeir vildu halda mér en tjáðu mér að það væri ekki til fjármagn í það. Nú er bara óvíst hvað verður en ég stefni að því að komast aftur út, það er mikil vinna að gera þetta sjálfur svo ég þyrfti helst að hafa með mér umboðsmann. Nú ef ekkert verður af samningi erlendis þá stefni ég á Domino´s-deildina.“
Efsta mynd/ muensterview.de / Heiner Witte