spot_img
HomeFréttirÞað erfiðasta sem ég hef upplifað í körfubolta

Það erfiðasta sem ég hef upplifað í körfubolta

15:53
{mosimage}

(María Ben Erlingsdóttir)

Keflvíkingurinn María Ben Erlingsdóttir hefur undanfarið átt á brattann að sækja í liði sínu UTPA í bandarísku háskóladeildinni í körfubolta. María lét vel til sín taka á síðustu leiktíð sem og í upphafi þessa keppnistímabils með UTPA en jólafríið tók sinn toll sem lagðist illa í þjálfara hennar. María sýpur nú seyðið af kreddum þjálfarans þar sem hún kom heim til Íslands í jólafrí og var fyrir vikið sett út af sakramentinu. Frá áramótum hefur María lítið sem ekkert fengið að spila með UTPA en hún lætur ekki deigan síga og ætlar sér að vera meira en klár í slaginn þegar kallið kemur.

,,Mér hefur gengið ótrúlega vel á æfingum og er alltaf að reyna að sanna mig meira og meira en þjálfarinn er búinn að ákveða að setja mig ekki inná, sama hversu vel ég geri á æfingum,“ sagði María sem síðast kom við sögu með UTPA þann 14. febrúar í 58-78 tapi UTPA gegn Long Beach State skólanum. Þá lék hún í aðeins fjórar mínútur.

,,Þetta byrjaði allt um jólin þegar ég kom til baka frá Íslandi því ég fékk "lengra" frí en hinar í liðinu. Hún sagði við mig persónulega að hún þyrfti þá að taka mig úr byrjunarliðinu og spila mér minna því annað væri ósanngjarnt gagnvart hinum. Hún spilaði mér lítið sem ekkert eftir það,“ segir María sem hefur þó fengið hvatningarorð í eyra frá aðstoðarþjálfara UTPA. ,, Ég ræddi við aðstoðarþjálfarann og hún sagði að minn tími kæmi og að ég væri ekki að gera neitt rangt, ætti bara að halda mínu striki áfram,“ sagði María sem segir núverandi stöðu sína innan liðsins vera mikil vonbrigði.

{mosimage}

,,Mér finnst umhverfið, skólinn og veðrið æðislegt hérna en karfan hefur ekki verið að gera sig. Þetta er erfiðasta aðstæða sem ég hef upplifð í körfunni og ég er alltaf að vonast til að fá séns. Ég er ekki tilbúin að gefast upp,“ sagði María ákveðin sem hefur aðeins leikið 55 mínútur í heildina í síðustu átta leikjum UTPA þar sem hún hefur verið valin í hópinn. María er úti á skólastyrk og er núna hálfnuð með námið en inni í skólastyrknum er húsnæði, matur, námið og fleira. Hún segir núverandi stöðu taka mikið á sálarlífið.

,,Ég er alls ekki sátt við þjálfarann minn en það eina sem ég get gert erð að hugsa jákvætt og nota þennan tíma til að bæta mig og undirbúa mig fyrir landsliðið í sumar,“ sagði María sem þó hefur ekki gefið sætið sitt í UTPA liðinu upp á bátinn. ,,Ég er ennþá í hópnum en ég er bara ekki að fá neinn spilatíma. Ég held áfram að gera mitt besta og get ekki gert meira en það. Maður þarf að vera rosalega sterkur í hausnum þegar svona gerist, ég nota þetta bara í að gera mig sterkari andlega.“ sagði María Ben Erlingsdóttir. Fróðlegt verður að sjá hvort María verði í hópnum á laugardag þegar UTPA mætir Chicago State á útivelli.

Spilatími Maríu í síðustu átta leikjum UTPA þar sem hún hefur verið í hópnum:

4 mínútur gegn Long Beach State 14. febrúar í 58-78 ósigri
8 mínútur gegn A&M Corpus Christi 28. janúar í 35-54 ósigri
3 mínútur gegn CSUB 17. janúar í 57-73 ósigri
11 mínútur gegn TAMIU 14. janúar í 84-47 sigri
6 mínútur gegn Oklahoma State 3. janúar í 36-85 ósigri
9 mínútur gegn Central Arkansas 31. janúar í 56-53 ósigri
8 mínútur gegn Troy 29. desember í 54-39 ósigri
6 mínútur gegn Ualbany 28. desember í 49-54 sigri

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -