Það var stutt stoppið á toppi ACB deildarinnar fyrir Unicaja Malaga því nú rétt í þessu voru þeir að tapa gegn gamla liði Jóns Arnórs Stefánssonar, CAI Zaragoza á heimavelli Zaragoza. Malaga hafði frumkvæðið í fyrri hálfleik en í þeim seinni spíttu heimamenn í lúkurnar og sigruðu að lokum 82:76. Jón Arnór og félagar reyndu hvað þeir gátu á lokasprettinum en heimamenn í Zaragoza kláruðu vel að þessu sinni.
Jóni líður greinilega ágætlega í Zaragoza en hann skoraði 12 stig gegn sínum gömlu félögum, sendi 3 stoðsendingar og tók 2 fráköst. Við tapið þá eru Malaga nú orðnir jafnir Real Madrid í 1-2 sæti bæði lið með 10 sigra og 2 töp. Barcelona leikur svo á morgun og getur tillt sér við hlið beggja liða með sigri.
Mynd:Unicajabaloncesto Á myndinni má sjá Jón Arnór spjalla við gömlu félaga sína í Zaragoza ef rýnt er til miðju vallarins.