spot_img
HomeFréttirSvíþjóð tryggði sér titilinn með öruggum sigri gegn Íslandi

Svíþjóð tryggði sér titilinn með öruggum sigri gegn Íslandi

Undir 18 ára stúlknalið Íslands mátti þola tap í dag fyrir Svíþjóð á Norðurlandamótinu í Kisakallio, 58-95. Liðið hefur því unnið tvo leiki og tapað tveimur, en á morgun leika þær lokaleik sinn á mótinu gegn Finnlandi.

Gangur leiks

Ísland nær rétt að hanga í Svíþjóð í upphafi leiks. Allur botn hrynur þó úr þeirri góðu baráttu undir lok fyrsta leikhlutans og er liðið 16 stigum fyrir aftan að fjórðungnum loknum, 14-30. Undir lok fyrri hálfleiksins bætir Svíþjóð svo enn við forystu sína og er 19 stigum á undan þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 29-48.

Ísland mætir með góða orku og baráttu inn í seinni hálfleikinn. Ná þó lítið að vinna á forskoti Svíþjóð, sem undir lok þriðja fjórðungsins ná að bæta aðeins í og eru 22 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 45-67. Svíþjóð opnar þann fjórða svo á þremur þristum á fyrstu tveimur mínútunum. Koma forystu sinni í 33 stig, 45-78 og eru eiginlega búnar að gera útum leikinn.

Atkvæðamestar

Anna Lára Vignisdóttir var stigahæst í liði Íslands í dag með 14 stig og 7 fráköst. Þá bætti Jana Falsdóttir við 11 stigum, 2 stoðsendingum og 2 stolnum boltum.

Kjarninn

Það er óhætt að segja að Ísland hafi mætt ofjarli sínum í dag. Sænska liðið einfaldlega komið lengra og hefði Ísland ætlað að eiga sjéns þá hefðu góðu kaflar liðsins í leiknum þurft að vera miklu, miklu lengri. Varnarlega náði Svíþjóð að stöðva nánast allt sem Ísland reyndi, þá tóku þær næstum helmingi fleiri fráköst og skutu boltanum betur. Eftir tvo sigra á fyrstu tveimur dögum mótsins eru nú komnir tveir tapleikir í röð hjá Íslandi. Áhugavert verður að sjá hvað þær gera í lokaleik sínum á mótinu á morgun gegn sterku liði Finnlands.

Hvað svo?

Síðasti leikur liðsins er kl. 16:45 á morgun gegn heimastúlkum í Finnlandi.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -