Martin Hermansson, Elvar Friðriksson og félagar þeirra í LIU Brooklyn riðu ekki feitum hesti frá leik sínum í kvöld í Madison Square Garden gegn fersku liði Stony Brook. Skemmst frá því að segja þá töpuðu okkar menn 54:73 og það var helst til afleiddur kafli liðsins í byrjun seinni hálfleiks sem varð þeim þungur baggi. Aðeins 5 stig skildu liðin í hálfleik eftir að LIU hafði farið hægt af stað. En í byrjun seinni hálfleiks þá skoruðu LIU-menn ekki stig í rúmar 5 mínútur á meðan Jameel Warney, miðherji þeirra Stony Brook fóru um teig þeirra líkt og um þakkargjörðar hlaðborð væri að ræða og kappinn át sig saddann.
Elvar og Martin komust aldrei þannig séð í takt við leikinn en þó voru þeir langt frá því að vera með lakari mönnum LIU liðsins í kvöld. Hugsanlega hefðu þeir mátt reyna meira sjálfir en svona spilaðist þessi leikur og liði LIU enn að leita af sínum fyrsta sigri þetta árið.
Mynd/SB: Elvar og Martin með Garðari Erni Arnarssyni starfsmanni 365 fyrir leik í kvöld