Á eftir mætast Sundsvall Dragons og Norrköping Dolphins í sínum sjötta leik í úrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar í körfuknattleik. Staðan í einvíginu er 2-3 Norrköping í vil og dugir þeim sigur í kvöld til þess að verða sænskur meistari. Takist Sundsvall að vinna verður oddaleikur á heimavelli Drekanna á fimmtudagskvöld. Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson hafa verið burðarásar í liði Sundsvall allt tímabilið og mun mikið mæða á þeim á eftir.
Norrköping tók 0-1 forystu í einvíginu með 78-79 útsisigri en Sundsvall jafnaði 1-1 með 93-94 útisigri. Sundsvall tók síðar 2-1 forystu á heimavelli með 80-70 sigri og Norrköping jafnaði á sínum heimavelli 2-2 með 93-84 sigri. Norrköping tók síðar 3-2 forystu á heimavelli Sundsvall með 75-87 sigri í fimmta leiknum. Sjötti leikurinn í kvöld fer fram á heimavelli Norrköping og hefst kl. 19.10 að staðartíma eða kl. 17.10 að íslenskum tíma.