Sundsvall Dragons tryggðu sér áðan oddaleik í úrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar með 93-94 háspennusigri gegn Norrköping Dolphins á útivelli. Jakob Örn Sigurðarson tryggði Sundsvall framlengingu með þriggja stiga skoti og skoraði svo sigurstig Sundsvall á vítalínunni.
Framlengja varð leikinn eftir venjulegan leiktíma þar sem staðan var 86-86 en Jakob Örn Sigurðarson jafnaði metin með þriggja stiga skoti þegar tvær sekúndur voru eftir. Í framlengingunni kom Jakob Sundsvall í 92-94 á vítalínunni en liðsmenn Norrköping fengu tvö víti þegar tvær sekúndur voru eftir en Mikael Lindquist brenndi af síðara vítinu og Sundsvall fagnaði sigri. Þetta þýðir að oddaleikur liðanna um sænska meistaratitilinn fer fram á heimavelli Sundsvall á fimmtudagskvöld en staðan í einvíginu er 3-3.
Jakob skoraði 28 stig í leiknum og tók 6 fráköst en stigahæstur hjá Sundsvall var Alex Wesby með 29 stig og Hlynur Bæringsson bætti við 6 stigum, 9 fráköstum og 5 stoðsendingum.