spot_img
HomeFréttirStyrmir Snær mættur til Davidson - Aðeins eitt bil milli hans og...

Styrmir Snær mættur til Davidson – Aðeins eitt bil milli hans og Steph Curry í búningsklefanum

Landsliðsmaðurinn Styrmir Snær Þrastarson er mættur til æfinga hjá Davidson í bandaríska háskólaboltanum, en hann samdi við skólann eftir að hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn með uppeldisfélagi sínu Þór í Þorlákshöfn á síðasta tímabili í úrvalsdeildinni.

Skólinn er líklegast best þekktur á Íslandi fyrir að vera fyrrum skóli annars landsliðsmanns, Grindvíkingsins Jóns Axels Guðmundssonar, en hann lék þar í fjögur ár við góðan orðstýr og tókst meðal annars að komast á lista “AP Honorable mention All American” eftir þriðja tímabil sitt með skólanum og þá var hann einnig valinn verðmætasti leikmaður Atlantic 10 deildarinnar sama ár.

Næstum allsstaðar annarsstaðar í heiminum er skólinn þekktastur fyrir að vera fyrrum skóli eins besta leikmanns heimsins í dag og umdeilanlega besta skotmanns allra tíma, leikmanns Golden State Warriors í NBA deildinni, Stephen Curry.

Samkvæmt færslu þjálfara Selfoss Chris Caird hefur Styrmir Snær fengið úthlutaðan skáp í búningsklefa Davidson og er hann ekki af verri endanum, þar sem aðeins eitt bil er á milli hans og skáps sem Curry er enn með þrátt fyrir að vera fyrir löngu búinn með skólann.

Nokkuð er enn í að tímabilið í bandaríska háskólaboltanum fari af stað, en enn á eftir að gefa út staðfesta töflu leikja. Á síðasta tímabili rúllaði Davidson af stað í lok nóvember, en þá enduðu þeir í þriðja sæti Atlantic 10 deildarinnar, unnu 13 leiki, en töpuðu 9.

Fréttir
- Auglýsing -