Í dag ræðst það hverjir verða heimsmeistarar! Þrír leikir eru á dagskránni á HM í Tyrklandi í dag þar sem heimamenn mæta Bandaríkjunum í úrslitaviðureigninni. Fjörið hefst strax á hádegi í dag þar sem Spánn og Argentína mætast í leik um 5. sætið.
Serbía og Litháen mætast svo kl. 16:00 í bronsleiknum og kl. 18:30 hefst sjálfur úrslitaleikurinn millum Tyrkja og Bandaríkjanna. Í gær lögðu Bandaríkjamenn Litháa 89-74 og tryggðu sér þannig sæti í úrslitum en Tyrkir höfðu ævintýralegan sigur á Serbum með körfu í teignum þegar ein sekúnda var til leiksloka. Dramatíkin ætti ekki að vera síðri í dag svo fólk er beðið um að spenna beltin á þessum lokadegi mótsins.
Ljósmynd/ www.fiba.com – Kerem Tunceri, nýjasta hetja Tyrklands fagnar sigri á Serbum í gær eftir að hann gerði sigurstig leiksins.