spot_img
HomeFréttirStoltur af strákunum: Mikil auglýsing fyrir íslenska leikmenn

Stoltur af strákunum: Mikil auglýsing fyrir íslenska leikmenn

 
Skömmu eftir að Sundsvall Dragons höfðu tryggt sér sænska meistaratitilinn höfðum við á Karfan.is samband við Sigurð Hjörleifsson umboðsmann en hann er faðir Jakobs sem hefur farið mikinn í úrslitaeinvíginu með Sundsvall gegn Norrköping. Sigurður var hinn ánægðasti eins og gefur að skilja og kvaðst gríðarlega stoltur af strákunum enda hafi Sundsvall í raun verið að leggja ,,Barcelona“ Svíþjóðar að velli!
,,Norrköping er Barcelona Svíþjóðar! Liðið hefur úr gríðarlegu fjármagni að spila og byggðu m.a. sérstaka höll undir körfuboltann hjá sér. Þetta er lið sem hefur fimm bandaríska leikmenn á sínum snærum, þrír þeirra eru reyndar með evrópskt vegabréf. Þá hafa þeir írskan landsliðsmann og tvo litháíska leikmenn,“ sagði Sigurður en Norrköping var í smá basli í deildarkeppninni þar sem liðið tók einnig þátt í Baltic-Cup og sendi stundum ekki sitt sterkasta lið í deildarkeppnina í Svíþjóð.
 
,,Sigurinn hjá Sundsvall er stærri en margir gera sér grein fyrir en þeir héldu vel á spilunum enda keyrðu þeir þetta mest á sex leikmönnum,“ sagði Sigurður en hvað er í kortunum hjá fjölskyldumönnunum Jakobi og Hlyn. Gætu stærri deildir farið að banka á dyrnar?
 
,,Báðir eiga þeir í raun ár eftir af samningi sínum hjá Sundsvall og það gæti skipt þá miklu máli ætli Sundsvall sér að taka þátt í Evrópukeppninni. Báðir hafa þeir gat til að líta í kringum sig fram í miðjan júní en varðandi Evrópukeppnina þá hefur þjálfari Sundsvall viljað fara í hana og nú er það komið upp á borðið með þessum titli,“ sagði Sigurður en Jakob varð nýverið faðir í fyrsta sinn og Hlynur er ytra með þrjú börn. ,,Sundsvall er góður klúbbur og stendur við allt sitt og báðir eru þeir komnir með börn svo þeir vaða ekkert af stað í neina vitleysu,“ sagði Sigurður sem er hrikalega stoltur af strákunum.
 
,,Ég er óskaplega stoltur af þeim báðum, þessi meistaratitill þeirra með Sundsvall er mikil auglýsing fyrir íslenska leikmenn inni á Svíþjóðarmarkaðnum. Sænska deildin getur verið rosalega góður stökkpallur, sér í lagi fyrir þá sem ekki hafa reynslu í atvinnumennsku en hvað sem öllu líður þá geta Íslendingar verið mjög stoltir af sínum fulltrúum í Svíþjóð núna.“
 
Sundsvall datt út í 8-liða úrslitum á síðustu leiktíð en urðu í ár bæði deildar- og landsmeistarar, magnað tímabil hjá Drekunum.
 
Fréttir
- Auglýsing -