spot_img
HomeFréttirStjörnusigur í Garðabæ

Stjörnusigur í Garðabæ

Stjarnan sigraði Tindastól í kvöld þegar liðin áttust við í Ásgarði í Domino's deild karla. Fyrir leikinn sat Stjarnan í 3. sæti deildarinnar með 16 stig en Tindastóll vermdi 7. sætið með 14 stig.

Heimamenn byrjuðu betur í kvöld og höfðu náð 7 stiga forystu eftir þriggja mínútna leik. Gestirnir frá Sauðárkróki hleyptu Stjörnunni þó aldrei of langt frá sér og eftir fyrsta leikhluta var staðan 23-16. Tómast Heiðar Tómasson byrjaði af krafti fyrir Stjörnuna og setti 8 stig á fyrstu mínútunum og Marvin Valdimarsson bætti við 6 stigum í leikhlutanum. Hjá Tindastól var Helgi Rafn Viggósson með 6 stig og Darrel Keith Lewis 4 stig. Fátt var um fínadrætti í sóknarleik Tindastóls og gekk þeim illa á mótri þéttri vörn Stjörnunnar. Stjarnan jók forystu sína enn frekar í öðrum leikhluta og leiddi í hálfleik með 12 stigum, 43-31.

Stjarnan náði 16 stiga forskoti þegar skammt var liðið á seinni hálfleik og fátt sem benti til þess að Stólarnir ætluðu að saxa á forystu heimamanna. Það gerðu þeir þó þegar leið á leikhlutann og með góðum lokamínútum minnkuðu gestirnir muninn niður í tvö stig, staðan eftir þiðja leikhluta 63-61 fyrir Stjörnunni.

Við tók æsispennandi lokaleikhluti þar sem liðin skiptust á að hafa forystuna. Gestirnir leiddu með einu stigi, 75-76, þegar um tvær mínútur voru eftir af leiknum. Jerome Hill gafst þá kjörið tækifæri til að auka forskot Stólanna enn frekar þegar hann fékk tvö víti en bæði vítin geiguðu. Al'lonzo Coleman setti tvö stig fyrir Stjörnuna í kjölfarið og Stjarnan búin að endurheimta forystuna. Tindastólsmenn náðu ekki að koma boltanum í körfuna það sem eftirlifði leiks og Stjarnan tryggði sér 5 stiga sigur, 81-76 og munaði þar miklu um tvö risastór sóknarfráköst frá Tómasi Þórði á lokamínútu leiksins.

Justin Shouse fór fyrir liði Stjörnunnar, skoraði 23 stig, tók 6 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Al'lonzo Coleman skoraði 19 stig og tók 7 fráköst fyrir Stjörnuna og Tómas Heiðar Tómasson bætti við 15 stigum. Hjá Tindastól var Darrel Keith Lewis með 20 stig, 12 fráköst og 8 stoðsendingar og vantaði því einungis tvær stoðsendingar upp á tvöfalda þrennu. Helgi Rafn Viggósson skoraði 17 stig og tók 6 fráköst og Jerome Hill endaði með 11 stig og 5 fráköst, en fyrstu stig hans í leiknum komu ekki fyrir undir lok þriðja leikhluta.

Stjarnan 81 – 76 Tindastóll (23-16, 20-15, 20-30, 18-15)

Stigaskor Stjörnunnar: Justin Shouse 23 stig/6 fráköst/10 stoðsendingar, Al'lonzo Coleman 19 stig/7 fráköst, Tómas Heiðar Tómasson 15 stig, Marvin Valdimarsson 11 stig, Sæmundur Valdimarsson 5 stig, Tómas Þórður Hilmarsson 5 stig/8 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 3 stig, Óskar Þór Þorsteinsson 0 stig, Magnús Bjarki Guðmundsson 0 stig, Ágúst Angantýsson 0 stig, Brynjar Magnús Friðriksson 0 stig, Kristinn Ólafsson 0 stig.

Stigaskor Tindastóls: Darrel Keith Lewis 20 stig/12 fráköst/8 stoðsendingar, Helgi Rafn Viggósson 17 stig/6 fráköst, Jerome Hill 11 stig/5 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 8 stig/5 stoðsendingar/5 stolnir boltar, Darrell Flake 8 stig/5 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 6 stig, Viðar Ágústsson 6 stig, Ingvi Rafn Ingvarsson 0 stig, Hannes Ingi Másson 0 stig, Sigurður Páll Stefánsson 0 stig, Finnbogi Bjarnason 0 stig, Pálmi Þórsson 0 stig.

Myndasafn (Bára Dröfn)

Mynd: Tómas Þórður Hilmarsson berst um frákast við Darrell Flake, en Tómas Þórður reif niður tvö mikilvæg sóknarfráköst á lokamínútu leiksins í kvöld (Bára Dröfn)
 

Fréttir
- Auglýsing -